Ekki má gleyma flóttaleiðum

Böðvar Tómasson, byggingarverkfræðingur hjá Öruggri verkfræðistofu.
Böðvar Tómasson, byggingarverkfræðingur hjá Öruggri verkfræðistofu. Ljósmynd/Aðsend

Samkomutakmarkanir vegna kórónuveirunnar hafa í för með sér að hólfa þarf niður mörg stór rými til að tryggja að fjöldi innan hvers rýmis sé í samræmi við reglur. Slíkt skapar ýmsar áskoranir fyrir fyrirtæki, stofnanir og viðburðahaldara. Þetta segir Böðvar Tómasson, byggingar- og brunaverkfræðingur hjá Öruggri verkfræðistofu.

Hann segir að þegar rými séu hólfuð niður virðist stundum gleymast að nauðsynlegt sé að tryggja að eftir sem áður séu tvær óháðar flóttaleiðir frá hverju svæði eins og byggingarreglugerðir kveði á um. Ekki er oft hlaupið að því að koma upp nýjum flóttaleiðum fyrir rými sem búið er að skipta upp, en Böðvar segir að hægt sé að tryggja öryggi með því að búa svo um að hægt sé að komast frá einu svæði yfir á annað í neyðartilfellum.

„Það er til dæmis hægt að hafa bil í grindum [sem skilja svæði að] eða hafa starfsfólk á vakt þannig að hægt sé að fara á milli svæða í neyðartilvikum.“

Þá þurfi að gera teikningar sem sýni skiptingu í hólf og flóttaleiðir, passa upp á aðgengi að handslökkvitækjum á hverju svæði og jafnvel uppfæra merkingar til viðbótar við hefðbundin gegnumlýst útljós.

Örugg verkfræðistofa sérhæfir sig í brunavörnum og gerð rýmingaráætlana. Þótt stofan sé tiltölulega ný hafa stofnendur yfir 20 ára reynslu úr geiranum. Böðvar segir að stofunni hafi borist nokkur fjöldi fyrirspurna síðustu vikur um hvernig best sé að útfæra samkomutakmarkanir.

„Við förum yfir teikningar og skissur og hvernig fyrrtæki hafa hugsað sér að skipta upp svæðum. Þetta þarf ekki endilega að vera flókið,“ segir Böðvar. Verkfræðingar stofunnar hafi tekið saman helstu atriði, sem fyrirtæki geti nálgast sér að kostnaðarlausu. „Þetta er hugsað sem okkar framlag á þessum óvenjulegu tímum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert