„Maður sér núna hverjir eru mestu sóðarnir“

Umgengni í kringum Hrunalaug hefur verið gríðarlega slæm undanfarið og …
Umgengni í kringum Hrunalaug hefur verið gríðarlega slæm undanfarið og segir Helena að nú sjáist hverjir það eru sem eru mestu sóðarnir. Ljósmynd/Kristjana Sigmundsdóttir

Gríðarlega slæm umgengni hefur verið undanfarnar vikur við náttúruperluna Hrunalaug í Hrunamannahreppi og hafa þar ítrekað mætt hópar ungs fólks á nóttunni og haldið partí langt fram eftir og skilið eftir sig mikið magn af rusli. Landeigendur hafa lagt bann við komum í laugina eftir klukkan tíu á kvöldin og stefna nú á að tæma úr henni vatnið yfir nóttina.

Íslendingar sjálfum sér verstir þegar kemur að umgengni um eigið land

Helena Eiríksdóttir og fjölskylda hennar hafa átt land í Ási í um eina og hálfa öld, en þar er laugina að finna og byggðu langafi hennar og afi upp laugina.

Í samtali við mbl.is segir hún að umgengnin hafi versnað mikið þrátt fyrir að erlendir ferðamenn komi ekki lengur í laugina. Í staðinn virðist áhugi Íslendinga á lauginni hafa aukist mikið, en landsmenn virðast ætla að vera sjálfum sér verstir þegar kemur að umgengni um eigið land. „Maður sér núna hverjir eru mestu sóðarnir,“ segir hún.

Steininn tók úr helgina eftir páska

Fjölskyldumeðlimir hafa að sögn Helenu skipst á um að reyna að halda lauginni við og passa upp á umgengni um hana. Páskarnir hafi verið mjög slæmir og svo helgina eftir páska hafi steininn hreinlega tekið úr og ljóst verið að breyta þyrfti einhverju. Þann laugardag hafi þau tekið allt til, en eftir skemmtun hóps aðfaranótt sunnudags hafi þurft að fylla tvo svarta ruslapoka af dósum og rusli daginn eftir.

Bjórdósir og sígarettustubbar eru því miður algeng sjón við laugina.
Bjórdósir og sígarettustubbar eru því miður algeng sjón við laugina. Ljósmynd/Kristjana Sigmundsdóttir

Svæðið ónýtt á örfáum vikum ef það væri ekki vaktað

Síðan þá hefur einhver úr fjölskyldunni vaktað svæðið á nóttunni til að reyna að koma í veg fyrir partístand og sóðaskap að sögn Helenu. „Ef við værum ekki hér að sinna þessu yrði svæðið ónýtt á 2-3 vikum,“ segir hún.

„Það er fullt af yndislegu fólki sem er til fyrirmyndar, en þetta næturbrölt er alveg skelfilegt og það er það sem við erum að taka fyrir,“ segir Helena. 

Breytingar þannig að hægt sé að tæma laugina

Landeigendur í Ási hafa í gegnum tíðina ekki viljað loka svæðinu eða taka gjald af gestum. Jafnvel með mikilli fjölgun ferðamanna og auknum ágangi vildu þau áfram halda lauginni opinni.

Spurð hvort komi til skoðunar að loka lauginni eða takmarka aðgengi segir Helena að fyrsta skrefið hafi verið að banna aðgang á nóttunni. Þá hafi þau óskað eftir og fengið tilboð í framkvæmd þar sem grafa eigi lögn úr lauginni þannig að hægt sé að skrúfa frá og tæma hana. Segir hún að með því væri hægt að stoppa fólk alveg í að fara í laugina að næturlagi, jafnvel þótt tilmæli hafi áður verið gefin.

Hrunalaug er lítil náttúrulagu í Hrunamannahreppi. Umgengni þar undanfarið hefur …
Hrunalaug er lítil náttúrulagu í Hrunamannahreppi. Umgengni þar undanfarið hefur verið til háborinnar skammar. mbl.is

En hvað með lokun laugarinnar alfarið? Helena segir að það sé ákvörðun sem fjölskyldan hafi velt fyrir sér vikulega um langt skeið, en vilji helst ekki fara þá leið. Segir hún þetta náttúruperlu sem hafi haldist í ættinni lengi og þau vilji halda henni svona, en ef ekkert breytist gæti þurft að endurskoða eitthvað.

Fólk kemur langt að um miðja nótt

Hún segir þó næturbröltið og tilheyrandi sóðaskap ekki einu slæmu umgengnina. „Það er líka þessi almenna slæma umgengni, munntóbakið og sígarettustubbarnir," bætir hún við.

Undanfarið hafa þau í fjölskyldunni rætt við gesti sem koma þangað og sérstaklega næturgestina með það fyrir augum að athuga hvaðan fólkið komi. Helena segir að það hafi glatt sig talsvert að sjá að ekki var um nærsveitafólk að ræða. Það hafi hins vegar komið sér nokkuð á óvart hversu langt að fólk var komið. Þannig hafi fólk jafnvel verið að leggja af stað í tveggja eða þriggja tíma fjarlægð um miðnætti og keyrt í hóp að lauginni.

Dóttir Helenu setti inn færslu á Facebook í gær þar sem hún gerði slæma umgengni að umtalsefni og ítrekaði að bannað væri að fara í laugina eftir tíu á kvöldin. Helena segir að dagurinn í gær hafi verið heldur leiðinlegur. Mikið hafi verið af freku ungu fólki og færslan hafi verið framhald af því. Í heild segir hún reyndar að Íslendingar séu frekari og tilætlunarsamari en erlendir ferðamenn, þótt stærstur hluti gestanna sé til fyrirmyndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert