Skora á kennarana sína í brennó

Hér má sjá fagurbláa boltana sem UMFÍ hefur sent grunnskólabörnum.
Hér má sjá fagurbláa boltana sem UMFÍ hefur sent grunnskólabörnum. Ljósmynd/UMFÍ

Nemendur í tugum skóla um allt land hafa fengið senda brennibolta frá Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) vegna Hreyfivikunnar sem hefst á morgun og stendur fram á sunnudag. Nemendurnir sem hafa fengið bolta ætla sér í brennibolta við kennarana sína, að því er fram kemur í tilkynningu frá UMFÍ.

Nemendur í Dalaskóla í Grafarholti eru á meðal þeirra sem hafa fengið brennibolta og eru þeir afar spenntir fyrir Hreyfiviku UMFÍ, sérstaklega fyrir brenniboltaleik á milli kennara og nemenda og fótboltamóti sem verður á milli árganga í vikunni. 

Öll hreyfing telur, eina skilyrðið er að hún veiti fólki …
Öll hreyfing telur, eina skilyrðið er að hún veiti fólki ánægju. Ljósmynd/UMFÍ

Ánægja skilyrði

Ólafur Snorri Rafnsson, íþróttakennari við Dalskóla, segir Hreyfivikuna tilvalda til að virkja fólk og hjálpa því til að uppgötva ýmsa hreyfingu sem það getur mögulega tileinkað sér.

Hreyfivika UMFÍ hefur verið haldin á hverju ári síðan árið 2012. Með átakinu eru landsmenn hvattir til þess að flétta hreyfingu inn í daglegt líf og virkja fólk í kringum sig. Öll hreyfing telur, eina skilyrðið er að hún veiti fólki ánægju.

UMFÍ vill að allir landsmenn finni sína uppáhaldshreyfingu og setji mynd af sér inn á Instagram með myllumerkinu #mínhreyfing sem hvatningu fyrir aðra. Dregið verður úr innsendum myndum og eru verðlaun í boði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert