Eldri maður sem seldi bangsana fundinn

Lögreglan er búin að hafa uppi á manninum.
Lögreglan er búin að hafa uppi á manninum. mbl.is/Eggert

Lögreglan á Suðurnesjum er búin að hafa uppi á eldri manni sem talinn er hafa selt pilti hlaupbangsa sem tvær unglingsstúlkur innbyrtu um síðustu helgi. Bangsarnir innihéldu kannabisefni og morfín.

Þetta staðfestir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, við mbl.is. Hann vill ekki greina frá því hvenær maðurinn fannst eða hvort búið er að yfirheyra hann. 

Aðspurður segir hann að sig reki ekki minni til þess að álíka mál hafi komið á borð lögreglunnar í sinni tíð.

Ólafur kveðst ekkert geta tjáð sig um líðan stúlknanna en þær voru fluttar meðvitundarlausar á sjúkrahús eftir að hafa innbyrt bangsana.

mbl.is