Auka niðurgreiðslu til foreldra

Sjálfstætt starfandi leikskólar náðu fram hagræðingu í fæðisinnkaupum yfir samkomubannstíma, …
Sjálfstætt starfandi leikskólar náðu fram hagræðingu í fæðisinnkaupum yfir samkomubannstíma, en borgarreknir leikskólar unnu ekki að slíkri hagræðingu, að sögn Hildar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í morgun samþykkti borgarráð aukna niðurgreiðslu til foreldra barna í sjálfstætt starfandi leikskólum og frístund, vegna þjónustuskerðingar í samkomubanni. Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vekur athygli á þessu á Facebook-síðu sinni.

„Þessa tillögu lagði ég fram í borgarráði 14. maí sl. Athygli vakti að meirihlutinn klofnaði í afstöðu sinni til málsins, en fulltrúi Vinstri grænna samþykkti ekki tillöguna,“ skrifar Hildur. 

Hún segir að með niðurgreiðslunni sé aukið jafnræði á milli fjölskyldna í borginni tryggt, óháð því hvort börn þeirra sæki borgarrekna eða sjálfstætt starfandi leikskóla eða frístund og þannig öllum fjölskyldum tryggður sams konar afsláttur vegna þjónustuskerðingar á tímum COVID-19.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjálfstætt starfandi hagræddu

„Það vekur þó athygli að foreldrar barna í sjálfstætt starfandi leikskólum fá ekki sömu niðurgreiðslu vegna fæðisgjalds og foreldrar barna í borgarreknum leikskólum. Ástæðuna má rekja til þess að sjálfstætt starfandi leikskólar náðu fram hagræðingu í fæðisinnkaupum yfir samkomubannstíma, en borgarreknir leikskólar unnu ekki að slíkri hagræðingu. Glöggt dæmi þess hve lítið aðhald er í opinberum rekstri borgarinnar,“ skrifar Hildur. 

„Sjálfstætt starfandi skólar hafa hvoru tveggja, tryggt agaðri rekstur í skólastarfi en jafnframt auðgað skólaflóruna í borginni. Mikilvægt er að styðja betur við sjálfstæðan skólarekstur svo tryggja megi foreldrum fleiri valkosti um ólíkar áherslur í uppeldi og menntun barna sinna. Meira frelsi og meira val er öllum til heilla!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert