Rýma flest hús í Hrísey

Fiskibáturinn Særún hefur ferjað mannskap frá landi út í eyju …
Fiskibáturinn Særún hefur ferjað mannskap frá landi út í eyju í morgun og hefur hann farið þrjár ferðir frá því tilkynnt var um eldinn um fimm í morgun. Ljósmynd/Sindri Swan

Mikill eldur er í gamla frystihúsinu í Hrísey og liggur þykkur reykur yfir eyjunni. Að sögn Ólafs Stefánssonar, slökkviliðsstjóra á Akureyri, er um varnarbaráttu að ræða og unnið að því að rýma flest hús í eyjunni.

Líkt og mbl.is greindi frá á sjötta tímanum í morgun kviknaði í frystihúsinu í nótt og hefur mikill mannskapur og búnaður verið sendur út í eyjuna í morgun auk þess sem heimamenn taka þátt í slökkvistarfinu.

Ólafur segir að allt tiltækt lið taki þátt í varnarbaráttunni við eldinn en hann er ásamt öllum mannskap að störfum í Hrísey. 

Við þurfum að rýma nánast öll húsin í eyjunni þar sem vindáttin hefur verið að breytast fram og til baka, segir Ólafur þegar blaðamaður mbl.is náði í hann á áttunda tímanum. 

Lögreglan biður íbúa í Hrísey að loka öllum gluggum hjá sér og auka kyndingu. Vart hefur orðið við ammoníaksleka frá vettvangi og eru íbúar beðnir að halda sig innandyra. 


Mannskapur hefur verið ferjaður út í Hrísey í morgun bæði með Hríseyjarferjunni Sævari og eins fiskibátnum Særúnu en skipverjar voru á leið á veiðar en frestuðu því til þess að taka þátt í að ferja fólk á milli lands og eyjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert