„Þetta er allt ónýtt“

Frá eldsvoðanum í Hrísey.
Frá eldsvoðanum í Hrísey. Ljósmynd/Birgir Sigurjónsson

„Það er rosa eldur þarna. Þetta er allt ónýtt,“ segir Mikael Sigurðsson, íbúi í Hrísey. Hann, líkt og aðrir íbúar eyjunnar, var vakinn eldsnemma í morgun en tilkynnt var um eld í gamla frystihúsinu í Hrísey um klukkan fimm í morgun.

Mikill mannskapur og búnaður hefur verið sendur í eyjuna í morgun auk heimamanna sem taka þátt í slökkvistarfinu. Einhver hús hafa verið rýmd og lögreglan biður íbúa um að loka öll­um glugg­um hjá sér og auka kynd­ingu. Um tíu manns störfuðu í frystihúsinu.

Mikael vonast til þess að slökkvilið sé að ná betri tökum á eldinum.

„Það er sunnangola og þá kemur vindurinn ekki hérna upp í þorpið,“ segir Mikael og bætir við að þá fjúki reykurinn frá eldinum á haf út.

Annað hafi verið uppi á teningnum snemma í morgun en Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, sagði við mbl.is fyrr í morgun að vindáttin hefði verið að breytast fram og til baka.

Mikael segir að vel hafi verið staðið að öllu í morgun en hann og eiginkona hans voru vakin eldsnemma í morgun. 

„Það kom hérna maður snemma í morgun, bankaði og vakti alla,“ segir Mikael sem er ánægður með aðstoðina sem borist hefur frá Dalvík og Akureyri. Hann heldur sig inni, með alla glugga lokaða, á meðan slökkviliðsmenn berjast við eldinn.

Hér fyrir neðan má sjá myndskeið sem Laimonas Rimkus birti á facebook í morgun. 

2020.05 28 K og G Hrisey

Posted by Laimonas Rimkus on Fimmtudagur, 28. maí 2020
mbl.is