Kanna þurfi réttmæti afturvirkra launahækkana

Skúli Eggert Þórðarsson ríkisendurskoðandi.
Skúli Eggert Þórðarsson ríkisendurskoðandi. mbl.is/​Hari

Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra hafa um 160 launagreiðendur óskað eftir hækkun á áður tilkynntum launum í janúar og febrúar. Heildarhækkun á launum fyrir þessa tvo mánuði nemur rúmum 114 milljónum króna.

Ríkisendurskoðun segir umræddar hækkunarbeiðnir bæði hærri og fleiri en í venjulegu árferði og að leiða megi líkum að því að meirihluti umræddra breytinga byggi á hæpnum grunni og að tilgangurinn sé að ná fram hærri greiðslum úr ríkissjóði.

Þetta kemur fram í úttekt Ríkisendurskoðunar á hlutastarfaleið stjórnvalda.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra hafa um 160 launagreiðendur óskað eftir hækkun á áður tilkynntum launum í janúar og febrúar. Heildarhækkun á launum fyrir þessa tvo mánuði nemur rúmum 114 milljónum króna.

Hlutabætur skulu reiknaðar miðað við meðaltal heildarlauna síðustu þriggja mánaða áður en launamaður missti starf sitt að hluta. Í ljósi þess aflaði Ríkisendurskoðun upplýsinga frá embætti ríkisskattstjóra um hversu margir launagreiðendur hafi óskað eftir að hækka áður tilkynnt laun og reiknað endurgjald.

Flestir starfi við eigin atvinnurekstur

Í svari ríkisskattstjóra kemur fram að 160 launagreiðendur hafi óskað eftir breytingum til hækkunar og að af þeim hafi 99 óskað eftir breytingum á launagreiðslum fyrir janúar og febrúar.

„Fjöldi þeirra sem óskað hafa eftir hækkun á áður tilkynntum launum og reiknuðu endurgjaldi fyrir janúar og febrúar 2020 er meiri en venjulega og þá er fjárhæðin að sama skapi hærri en venjulegt er. Í flestum tilvikum er um að ræða aðila sem starfa við eigin atvinnurekstur,“ segir í úttekt Ríkisendurskoðanda.

Þá segir að Ríkisendurskoðun telji að svo miklar breytingar veki upp spurningar um ástæður umræddra breytinga og að kanna þurfi réttmæti þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert