„Mega skrýtinn“ bílþjófnaður tafði opnun

Sendibílar fyrir utan Flatey Pizza á Garðatorgi. Öðrum sendibíl af …
Sendibílar fyrir utan Flatey Pizza á Garðatorgi. Öðrum sendibíl af annarri gerð var stolið fyrir utan staðinn í gær, sem seinkaði fyrirhugaðri opnun, enda voru nauðsynleg skilti í bílnum. Ljósmynd/Aðsend

Flatey Pizza á Garðatorgi hefði að líkindum opnað nú fyrir helgi ef ekki hefði verið fyrir bíræfinn bílaþjóf á kreiki í Garðabænum í gær. Með því að stela sendibíl og þar með skiltunum fyrir nýja staðinn lagði hann sitt af mörkum til þess að seinka opnuninni.

Bílnum hafði verið lagt fyrir utan á meðan bílstjórinn skaust inn. Að óbreyttu hefði staðið til að sækja skiltin í bílinn, skella þeim upp og geta opnað í dag, föstudag. Svo fór þó ekki.

Bíllinn hvarf en fannst svo aftur rúmum sex tímum síðar. Hvað gerðist í millitíðinni er lokuð bók, en tankurinn var tómur og verðmæti lágu eftir óhreyfð í bílnum. Málið er í raun svo dularfullt að illa verður komist hjá því að tala hér um Flateyjargátu hina nýju.

Mega skrýtið

Gunnlaugur Karlsson, bílstjórinn: „Þetta var mega skrýtið.“

„Ég lagði bílnum við hliðina á húsinu, er með veski og lykla og fleira í vasanum, þannig að ég drep á bílnum og hendi þessu í sætið á meðan ég skýst inn. Ég fer inn og í smá kaffi og síðan ætla félagar mínir að fara út og henda rusli í bílinn. Ég kem út til þeirra og sé ekki bílinn og spyr strákana hvar hann er og þeir koma af fjöllum. Hvar er hann? spyr ég. Ég hélt fyrst að þeir væru að grínast í mér, en bíllinn var bara horfinn,“ segir Gunnlaugur. 

Með bílnum hurfu skiltin, sem setti áformin skiljanlega í uppnám. Við tók leit að bílnum, silfurlituðum Ford Transit, sem klukkustundum saman bar engan árangur. Um kvöldið ætlaði Gunnlaugur að rúnta inn í nærliggjandi hverfi og leita bílsins og keyrði framhjá hvarfstaðnum. Honum til undrunar kom hann auga á bílinn, þar sem honum hafði verið lagt við skátaheimilið Jötunheima, steinsnar frá pitsastaðnum. 

Skjáskot/Facebook

„Þar var hann bara, opinn og lyklarnir í skránni. Veskið mitt var enn í sætinu en ég sá að það hafði verið rótað í hanskahólfinu og undir sætinu. Það skrýtnasta var að tankurinn var tómur, sem þýðir annaðhvort að þjófurinn hafi keyrt hann þar til hann skilaði honum eða að hann hafi tekið úr honum bensínið. Ég var ekki með kílómetrafjöldann fyrir hvarfið,“ segir Gunnlaugur.

Daglegt brauð að bílar séu fengnir fjandsamlega að láni

Lögreglan sagði Gunnlaugi að þetta væri liggur við daglegt brauð, að bílar hyrfu og skiluðu sér aftur samdægurs eða dúkkuðu upp annars staðar. Af ýmsum ástæðum er hópur fólks í vondri stöðu sem stundar að skella sér einfaldlega inn í bíla til að komast á milli staða. Á leiðarenda leggur þetta fólk bílnum eins og ekkert væri sjálfsagðara og yfirgefur vettvang.

Gunnlaugur sér að sögn ekki hvernig hann ætti að fylgja málinu eftir að svo komnu, en um ókomna tíð mun hann væntanlega klóra sér í kollinum yfir því hvað gerðist í bílnum á þessum rúmu sex klukkustundum í gær, frá hálf fjögur til tíu um kvöld.

Upphaflegt ætlunarverk Gunnlaugs, að koma skiltunum á Flatey, tókst. Þau lágu í bílnum þegar hann fannst, enda mun þjófurinn hafa metið það svo að eini hugsanlegi kaupandinn að skiltunum yrði einmitt Flatey Pizza. Þau voru því best látin ósnert í skottinu og eru nú á leið upp á vegg á staðnum, sem nær að opna eftir helgi.

Eitt af skiltunum sem þurfti að græja fyrir opnun.
Eitt af skiltunum sem þurfti að græja fyrir opnun. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is