Skipfyllir í fyrstu ferðum eftir samkomubann

Valdimar Halldórsson var í hlaupagallanum er hann leysti landfestar i …
Valdimar Halldórsson var í hlaupagallanum er hann leysti landfestar i hádeginu. mbl.is/Hafþór

Hvalaskoðun er hafin á nýjan leik á Húsavík. Fyrsta ferð hvalaskoðunarfyrirtækisins Norðursiglinga að loknu samkomubanni var farin í morgun. Ekki hefur verið siglt síðan um miðjan mars.

„Þetta var frábær byrjun því við sáum bæði steypireyðar og hnúfubaka,“ segir Valdimar Halldórsson, framkvæmdastjóri Norðursiglinga, í samtali við mbl.is. Gestirnir voru, eins og gefur að skilja, aðrir en verið hefur. „Þetta eru mestmegnis Íslendingar á ferð um landið,“ segir Valdimar. „við auglýstum tilboð um helgina enda gott veður og margir á svæðinu.“

Tvær ferðir voru farnar í dag, önnur klukkan 10:30 og hin klukkan 13. Uppselt var í seinni ferðina og um 30 manns í þeirri fyrri. Valdimar segir að fyrirtækið ætli að fara rólega af stað. Stefnt sé að ferðum í allt sumar, en þó miklu færri en síðasta sumar þegar margar ferðir voru farnar á degi hverjum.

„Þetta er allt öðruvísi núna, en við vonum að það fari að glæðast eitthvað þegar landamærin opna og við förum að sjá ferðamenn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert