„Fékk jákvætt kúltúrsjokk“

„Fólk tók rosalega vel á móti mér og mér leið …
„Fólk tók rosalega vel á móti mér og mér leið strax vel hérna. Það gerði það að verkum að ég elskaði Ísland strax,“ segir Georg sem sést hér ásamt Anaïs og börnunum tveimur, Sofiu Leu og Samuel Mána. mbl.is/Ásdís

Hinn brasilíski Georg Leite og hin franska Anaïs Barthe eru sest að á Íslandi. Georg hefur verið hér meira og minna í tvo áratugi en Anaïs í fimm ár. Helgarnámskeið í dansi leiddi parið saman og síðan þá hafa þau skapað sér gott líf hér ásamt börnum sínum tveimur.

Fyrir rúmum tveimur áratugum lenti hér á landi sautján ára brasilískur skiptinemi sem féll fyrir landi og þjóð. Georg Leite er nú íslenskur ríkisborgari, ljósmyndari, viðskiptafræðingur og einn eiganda hins vinsæla bars Kalda. Fyrir sex árum síðan var hann gabbaður á dansnámskeið sem kennt var af franska atvinnudansaranum Anaïs Barthe, en hún var hér einungis í sex daga stoppi til að kenna. Skemmst er frá því að segja að Amor hitti þau bæði í hjartastað og var Anaïs flutt til Íslands ári síðar. Anaïs og Georg eignuðust soninn Samuel Mána í fyrra en fyrir átti Georg dótturina Sofiu Leu. Þessi blandaða fjölskylda unir hag sínum vel á Íslandi og vill hvergi annars staðar vera. Í bláu timburhúsi vestast í Vesturbænum hitti blaðamaður hjónaleysin og forvitnaðist um hvað í ósköpunum þau væru að gera hér í kuldanum á hjara veraldar. 

Ást við fyrstu sýn

Anaïs er frá Toulouse í Suðvestur-Frakklandi, fædd þar og uppalin. Hún var ung að árum þegar dansinn tók öll völd.

„Það er enginn dansari í fjölskyldunni en ég byrjaði ung að dansa og það tók fljótt yfir. Mamma er efnafræðingur og pabbi tækniteiknari hjá Airbus. Ég er lærður dansari og hef dansað sem atvinnudansari í rúman áratug. Ég dansaði hjá ýmsum danshópum í Frakklandi og ferðaðist vítt og breitt en lífið breyttist töluvert þegar ég flutti hingað,“ segir Anaïs.

Upphafið að Íslandsævintýrinu var helgarnámskeið í Kizomba sem Anaïs var beðin um að kenna eina helgi í maí árið 2014. Hún bókaði hingað sex daga ferð og hugðist kenna í þrjá daga og skoða sig svo um hina dagana.

„Þá hitti ég Georg,“ segir hún og brosir.

Ástin kviknaði á Íslandi.
Ástin kviknaði á Íslandi. mbl.is/Ásdís

Örlög hennar voru þar með ráðin. Stutt ferð til Íslands að kenna dans breytti lífinu til frambúðar.

Þannig var mál með vexti að Georg skráði sig á áðurnefnt dansnámskeið.

„Vinkona mín vildi fá mig með á námskeiðið og ég sló til. Ég heyrði að Anaïs talaði smá portúgölsku í tímanum og fór því að spjalla við hana eftir annan tímann, en við hittumst óvænt aftur það kvöld, á Kalda,“ segir hann, en hann var þá að vinna það kvöld.

„Hún kom inn með öðrum kennara og við fórum að spjalla,“ segir Georg.

Var þetta ást við fyrstu sýn?

Georg svarar því játandi og horfir á konu sína.

Leið strax vel hér

Georg er frá Bahia-héraði í Brasilíu og kom hingað fyrst árið 1998 sem skiptinemi. Í dag er hann viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Hann rekur sem fyrr segir Kalda bar og er einnig með heildverslunina Drykkur sem selur áfengi og gosdrykki.

„Ég er frá litlum bæ í Brasilíu; já, eða þar búa tvær milljónir manna,“ segir hann og hlær.

Spurður hvers vegna Ísland hafi orðið fyrir valinu þegar hann valdi sér skiptinemaland segir Georg:

„Við fengum norskan skiptinema heim til mín í Brasilíu og í gegnum hann kynntist ég Íslendingum sem voru einnig skiptinemar í mínum bæ. Þess vegna vildi ég fara til Norðurlanda þegar ég átti að fara sem skiptinemi,“ segir Georg.

Fékkstu kúltúrsjokk að koma hingað?

„Þetta var jákvætt kúltúrsjokk,“ segir Georg á nánast óaðfinnanlegri íslensku.

„Ég fann að ég var öðruvísi, en á þessum tíma voru ekki margir litaðir hér á landi, nema hermenn af vellinum. Fólk tók rosalega vel á móti mér og mér leið strax vel hérna. Það gerði það að verkum að ég elskaði Ísland strax.“

Hlutverk í Mamma Mia!

Við snúum okkur aftur til ársins 2014, þegar parið hittist fyrst á dansnámskeiði og svo á Kalda. Anaïs fór heim til Frakklands að þessum sex dögum loknum en ekki gátu þau gleymt hvort öðru. Þau töluðu mikið saman á netinu og í síma.

Anaïs fékk hlutverk sem dansari í Mamma Mia! sem var …
Anaïs fékk hlutverk sem dansari í Mamma Mia! sem var sýnt í heil tvö ár. Ljósmynd/Aðsend

„Ég kom aftur til Íslands mánuði seinna til að hitta hann,“ segir hún og síðar fór hann að heimsækja hana til Frakklands. Svona gekk það í eitt ár, að þau flökkuðu sitt á hvað yfir hafið til að hittast.

„Ég kom svo hingað að vetrarlagi og var í tvo mánuði, því ég hugsaði með mér að ef ég myndi þola veturinn hér gæti ég vel búið hér. Ég var svo alflutt hingað í maí 2015, einu ári eftir að við kynntumst,“ segir hún.

„Fyrstu mánuðina var frekar erfitt að vera hér og ég fann ekki strax vinnu en fór svo að hitta fólk úr danssamfélaginu hér. Ég fékk svo tækifæri til að fara í prufu fyrir Mamma Mia! og fékk hlutverkið. En æfingar byrjuðu ekki fyrr en í janúar þannig að frá maí og fram í janúar var ég bara að bíða. En að mörgu leyti var gott að fá smá tíma til að aðlagast og finna minn stað hér því það var kúltúrsjokk að koma hingað, þótt munurinn á milli Frakklands og Íslands sé kannski minni en munurinn á milli Íslands og Brasilíu. Ég talaði ekki íslensku og enskan mín var ekkert sérstök heldur. Ég þurfti að venjast nýjum siðum og nýrri menningu.“

Fólk farið að biðja um knús

„Erfiðast fannst mér að þegar ég hitti Íslendinga í fyrsta sinn átti ég erfitt með að lesa í þá. Fólk gat virst kalt í viðmóti. Stundum fannst mér fólk jafnvel dónalegt en ég held það hafi í raun ekki verið viljandi. Fólk sagði mér að þetta væri bara svona víkingadónaskapur,“ segir hún og þau hlæja.

Við ræðum kossa og faðmlög á Íslandi og erum sammála um að Íslendingar séu farnir að opna sig meira og knúsast meira en áður, þó það gildi kannski ekki um síðustu kórónuveirumánuði.

Georg segist einnig hafa lent í óvissu með þessi atriði en ákveðið að faðma fólk að fyrra bragði.

Hjónaleysin sjást hér í portinu á bakvið Kalda, en Georg …
Hjónaleysin sjást hér í portinu á bakvið Kalda, en Georg er þar einn eiganda. mbl.is/Ásdís

„Ég elska að faðma fólk og geri það gjarnan. Ég sagði við einn félaga minn á Kalda að ég væri með eina reglu; að þegar við hittumst þyrfti ég að faðma hann. Hann var ekkert spenntur fyrir því en ég sagði honum bara að hann þyrfti ekkert að faðma mig á móti. Svo nokkrum mánuðum seinna hittumst við og ég var upptekinn við eitthvað og bara kastaði á hann kveðju. Hann varð hálfskrítinn og spurði hvort það væri ekki allt í lagi. Ég sagði allt vera í fínu lagi og spurði hann af hverju hann spyrði. „Af því að þú faðmaðir mig ekki í dag.“,“ segir hann og brosir. 


„Í Frakklandi erum við vön að kyssa alla en hér er þetta öðruvísi og mér fannst erfitt að átta mig á því á hvaða tímapunkti í kynnum við fólk maður ætti að kyssast. Heima í Frakklandi kyssir maður bara alla,“ segir hún og segist hafa verið óörugg í upphafi.

„Svo ákvað ég bara að gera þetta á minn hátt og fór að faðma fólk. Og eins og Georg segir, fólk var farið að biðja mig um knús,“ segir hún og brosir.

Ítarlegt viðtal er við Georg og Anaïs í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en lesa má það hér á mbl.is í netgreinum Morgunblaðsins:

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert