„Bandaríkin á barmi borgarastyrjaldar“

Jeffrey Guarino, matsveinn og fyrrverandi hermaður, hefur búið á Íslandi …
Jeffrey Guarino, matsveinn og fyrrverandi hermaður, hefur búið á Íslandi frá árinu 2002. Ljósmynd/Aðsend

Lögregluofbeldi í Bandaríkjunum og fordómar innan stéttarinnar í garð svartra eru síður en svo nýtilkomið vandamál, en snjallsímavæðing og samfélagsmiðlar hafa orðið til þess að skjalfesta vandamálið á þann hátt að ómögulegt er að afneita því.

Þetta segir Jeffrey Guariono, Bandaríkjamaður og uppgjafahermaður sem er búsettur hér á landi. Jeffrey er einn skipuleggjenda samstöðumótmæla sem haldin verða á Austurvelli á miðvikudag til stuðnings mótmælum sem geisa nú um öll Bandaríkin vegna kynþáttamismununar bandarísku lögreglunnar, en kveikjan að þeim er myndband sem náðist af hvítum lögregluþjóni drepa hinn svarta George Floyd í Minneapolis á mánudag fyrir viku. Lögregluþjónninn hefur verið ákærður fyrir morð.

Jeffrey, sem er fimmtugur, hefur búið á Íslandi frá árinu 2002 en hann er giftur íslenskri konu og eiga þau tvö börn. Hann segir að sem svartur maður í Bandaríkjunum sé það eðlislægt viðhorf að óttast lögreglu þar í landi. „Ef ég sem svartur maður mæti lögreglunni er ég ekki saklaus [í þeirra augum]. Ég nýt ég ekki þeirra forréttinda, en hvítir Bandaríkjamenn njóta þeirra forréttinda alltaf,“ segir Jeffrey.

Lögreglumenn beri fyrir sig að þeir óttist um líf sitt ef svartur maður spyr hvers vegna hann hafi verið stöðvaður, en á sama tíma geti hvítir mótmælendur ógnað lögreglu og otað að henni hríðskotarifflum án þess að lögregla „óttist um líf sitt“. „Ég veit ekki með þig en ég myndi frekar óttast um líf mitt ef einhver otaði að mér riffli en ef einhver talaði við mig,“ segir hann við blaðamann, sem getur ekki annað en tekið undir.

Vísar Jeffrey þar meðal annars til mómæla víðs vegar um landið vegna útgöngubanns sem sett var á til að stemma stigu við kórónuveirunni. Mótmælendur, sem flestir voru hvítir, gengu sumir harkalega fram, hótuðu lögreglu og báru vopn án þess að lögreglumenn brygðust við af mikilli hörku.

Hópurinn „Michigan-búar gegn óhóflegri sóttkví“ mótmælti sóttvarnaaðgerðum í ríkinu með …
Hópurinn „Michigan-búar gegn óhóflegri sóttkví“ mótmælti sóttvarnaaðgerðum í ríkinu með því að mæta vopnaður utan við ríkisþinghúsið. Fresta þurfti fundum þingsins vegna þessa, án þess að lögregla sæi ástæðu til að beita hörku. AFP

Aldrei eltur af lögreglu á Íslandi

Jeffrey segir himin og haf milli viðmóts lögreglu og almennings í Bandaríkjunum og hér á Íslandi. „Þegar börnin mín fara út úr húsi hér á Íslandi þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því hvort þau komi heil heim.“

Spurður hvort fordómar séu þó ekki við lýði hér á landi í einhverri mynd viðurkennir Jeffrey að hann hafi lent í „neikvæðum atvikum“ en þar sé um einangruð tilvik að ræða sem endurspegli ekki samfélagið í heild. „Ég hef til dæmis aldrei verið eltur af lögreglu hér eða lent í neinum vandræðum í samskiptum við hana.“ Sömu sögu sé ekki að segja frá Bandaríkjunum.

Jeffrey segir aðspurður að einhverjir aðstandendur mótmælanna hafi rætt um …
Jeffrey segir aðspurður að einhverjir aðstandendur mótmælanna hafi rætt um að gengið verði að sendiráði Bandaríkjanna á Laufásvegi, en ekkert hafi verið ákveðið í þeim efnum. Mótmælin hefjast í það minnsta á Austurvelli klukkan 16.30 á miðvikudag. mbl.is/Sverrir

„Ég finn miklu betur fyrir frelsinu, sem Bandaríkin eiga að byggja á, hér á Íslandi en þar,“ segir hann og bætir við að betur sé hlúð að fjölskyldum hér en í Bandaríkjunum. „Þegar sonur minn fæddist bjó ég úti. Viku eftir að hann fæddist skipaði yfirmaðurinn mér að snúa aftur til vinnu, annars yrði ég rekinn. Þegar dóttir mín fæddist á Íslandi gat ég tekið nokkra mánuði í leyfi og fyrir vikið er samband mitt við hana miklu sterkara enda sá hún mig á hverjum degi. Vinir mínir í Bandaríkjunum trúðu því ekki þegar ég sagði þeim frá stöðunni á Íslandi.“

Jeffrey segir að fólk spyrji hann oft hvort hann geti hugsað sér að flytja aftur til Bandaríkjanna. „Eins og staðan er núna get ég ekki hugsað mér það. Ég elska samt landið mitt, ég gekk í sjóherinn og var tilbúinn að deyja fyrir landið.“

Stærstu skref frá dögum Martin Luther King

Jeffrey segir aðspurður að hann telji mótmælaölduna nú vera stærstu umbótahreyfinguna í réttindabaráttu svartra vestanhafs frá sjöunda áratugnum, er Martin Luther King var uppi. „Ég hef bara lesið og heyrt af því sem gerðist á sjöunda áratugnum en ég trúi því að það hafi verið sögulegir atburðir,“ segir Jeffrey. 

Mótmælt í Kaliforníu í gær.
Mótmælt í Kaliforníu í gær. AFP

Kynþáttafordómum hafi reglulega verið mótmælt síðan þá, sérstaklega í kjölfar frétta af lögregluofbeldi í garð svartra, en þau mótmæli hafi jafnan verið bundin við eina eða tvær borgir. Staðan nú sé allt önnur og allt landið undirlagt mótmælum. „Bandaríkin eru á barmi borgarastyrjaldar um þessar mundir,“ og tvær fylkingar í landinu.

„Það eru annars vegar þeir sem ríghalda í þá mýtu að Bandaríkin séu best í öllu af engri ástæðu, og hins vegar breiður hópur fólks sem sér stöðuna eins og hún er og áttar sig á að breytinga er þörf.“

Þrátt fyrir það er Jeffrey þó ekki bjartsýnn á umbætur á landsvísu meðan núverandi forseti er við völd. „Með þessa ríkisstjórn óttast ég afleiðingar mótmælanna. Við erum á þeim stað að milljónir manna geta horft á forseta ljúga til um hluti, sem hann hefur áður sagt í beinni útsendingu, og trúað honum. Ég hefði aldrei haldið að sú staða gæti komið upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert