Loftrýmisgæsla Ítala hefst í júní

Frá loftrýmisgæslu Ítala síðasta vor.
Frá loftrýmisgæslu Ítala síðasta vor. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Loftrýmisgæsla ítalska flughersins hefst á Íslandi um miðjan júní. Liðsmenn flughersins fara í 14 daga sóttkví, læknisskoðun og skimun á herstöð áður en hingað er komið og fara svo aftur í 14 daga sóttkví við komuna til landsins. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni, en þar segir að síðustu loftrýmisgæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins hafi lokið hér á landi í byrjun apríl með brottför norska flughersins, en að ráð hafi verið gert fyrir því að ítalski flugherinn kæmi í kjölfarið. Vegna aðstæðna var komu Ítalanna hins vegar frestað. 

Nú er verkefnið aftur komið á dagskrá og er ráðgert að loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland hefjist að nýju um miðjan júní með komu flugsveitar ítalska flughersins. Áætlað er að 135 liðsmenn flughersins taki þátt í verkefninu auk starfsmanna frá stjórnstöð NATO í Uedem í Þýskalandi. Flugsveitin kemur til landsins með sex F-35-orrustuþotur og eru þoturnar væntanlegar í annarri viku júnímánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert