Mótmælir uppsögnum harðlega

Ferjan Norræna.
Ferjan Norræna. mbl.is/Árni Sæberg

Bæjarráð Seyðisfjarðar gagnrýndi uppsagnir starfsmanna Skattsins í bænum á fundi sínum í gær.

„Það er með öllu óásættanlegt, að á sama tíma og sveitarfélög eru hvött til að spyrna við og skapa atvinnu á tímum covid-19, eru útsvarstekjur Seyðisfjarðarkaupstaðar rýrðar með því að leggja niður störf og færa þau til Reykjavíkur,“ segir í bókun bæjarráðs.

RÚV greindi frá því í síðustu viku að öllum sex aðstoðarmönnum tollvarða á Seyðisfirði hefði verið sagt upp en þeir hafa sinnt afgreiðslu ferjunnar Norrænu. Í staðinn verða tollverðir sendir austur til aðstoðar á ferjudögum. Tveir tollverðir verða áfram í fullu starfi á Seyðisfirði og tveir á Eskifirði en fleiri þarf til að afgreiða ferjuna.

Bæjarráð segir vandséð að hagræðing sé fólgin í þessu fyrirkomulagi og hefur óskað eftir fundi með skattstjóra eins fljótt og auðið er til að fara yfir rökstuðning hans vegna aðgerðanna. Bent hefur verið á að erfitt sé að koma fólki austur að vetrarlagi, sem myndi bitna á tollskoðun. 

„Bæjarráð Seyðisfjarðar mótmælir þessum uppsögnum harðlega og hvetur Skattinn til að endurskoða þessa ákvörðun sína,“ segir í bókuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert