„Stenst ekki einu sinni stjórnarskrá“

Horft yfir Reykjavíkurflugvöll.
Horft yfir Reykjavíkurflugvöll. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta stenst ekki einu sinni stjórnarskrá, hvað þá samkomulagið sem Reykjavíkurborg gerði við ríkið í nóvember,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, spurður út í áform Reykjavíkur um að rífa viðhaldsstöð flugfélagsins Ernis við Reykjavíkurflugvöll, bótalaust, vegna nýs skipulags.

Skýli flugfélagsins stendur nærri ströndinni þar sem ráðgert er að Fossvogurinn verði brúaður frá Vatnsmýrinni og yfir til Kársness. Leggja á veg þar sem skýlið stendur samkvæmt áætlunum borgaryfirvalda.

Greint var frá málinu í fréttum Stöðvar 2 í gær og bent á að skýlið sé vinnustaður tólf flugvirkja flugfélagsins, hafi alþjóðlega vottun yfirvalda sem viðhaldsstöð og sé ein helsta forsenda flugrekstrarins.

Hörður Guðmundsson, forstjóri félagsins, sagði þetta myndu kippa fótunum undan rekstrinum.

Eyþór Arnalds, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins.
Eyþór Arnalds, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bein atlaga að fluginu

Reykjavíkurborg og ríkið gerðu með sér samkomulag í nóvember sem varðar framtíð flugvallarins. Í því fólst meðal annars að rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli yrði tryggt á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stæði, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis.

„Þetta er bein atlaga að fluginu og náttúrulega ótrúlegt útspil frá meirihlutanum,“ segir Eyþór um þessi nýju áform borgarinnar.

„Að ætla að fara í gegnum mikilvæga byggingu fyrir flugið án þess að bætt sé úr eða borgað fyrir. Þarna er verið að fara gegn almannahagsmunum en einnig gegn samkomulagi þar sem blekið er varla þornað.“

Eiga fund með Isavia á mánudag

Í samtali við mbl.is segist Eyþór hafa óskað eftir fundi með Isavia vegna málsins. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins muni því funda með fulltrúum Isavia á mánudag.

„Við munum taka þetta upp í borgarstjórn og reyna að koma í veg fyrir að þetta verði gert. Það þýðir ekkert annað en að spyrna við fótum og vekja athygli á þessari ótrúlegu framkomu.“

mbl.is