Börnin kveða rímur

Ljósmynd/Aðsend

Starfsfólk leikskólans Laufásborgar í Reykjavík hefur í samvinnu við Steindór Andersen kvæðamann kennt börnum kvæði og að kveða rímur undanfarin tólf ár. Afraksturinn hefur nú verið gefinn út í sönghefti og á geisladiski með það í huga að deila efninu með fjölskyldum og vinafólki.

Jensína Edda Hermannsdóttir og Matthildur Laufey Hermannsdóttir eru leikskólastýrur Laufásborgar. Jensína segir að þær hafi beðið Steindór að koma í skólann og miðla af fróðleik sínum á þorranum 2008. „Hann tók boðinu heilshugar og var meira en tilbúinn að leggja sitt lóð á vogarskálarnar,“ segir Jensína. „Þannig hófst þetta skemmtilega samstarf. Mikil og sterk sönghefð er á Laufásborg og sameiginlegur áhugi okkar og Steindórs á þjóðlegum arfi leiddi okkur saman.“

Þjóðlegur arfur

Á Laufásborg er unnið með kveðskap og þjóðlegan arf á þorranum og góunni. Bára Grímsdóttir og fleiri kvæðakonur hafa komið á góunni og undanfarin tólf ár hefur Steindór komið einu sinni eða tvisvar á hverju tímabili með efni, sungið og kveðið vísur fyrir börnin og starfsfólkið auk þess sem foreldrum hefur verið boðið að fylgjast með. „Við höfum átt afskaplega skemmtilega stund saman ár eftir ár. Við höfum gripið boltann á lofti frá Steindóri, æft okkur og kennt börnunum kveðskapinn. Þannig viðhöldum við arfinum og bætum ofan á grunninn á hverju ári með þeim árangri að börnin á Laufásborg kunna að kveða rímur.“

Laufásborg. Steindór Andersen kennir áhugasömum börnum kveðskap.
Laufásborg. Steindór Andersen kennir áhugasömum börnum kveðskap. Ljósmynd/Aðsend

Jensína leggur áherslu á að samstarfið sé mjög dýrmætt. „Það er gagnkvæmur áhugi og ástríða á þessu verkefni og þegar við ákváðum að ráðast í það metnaðarfulla verkefni sem útgáfan er fékk Steindór Hilmar Örn Hilmarsson, vin sinn, til að stjórna upptökum. Við erum mjög stolt af þessu og útgáfan er fyrst og fremst óeigingjarnri velvild Steindórs að þakka.“ Hún bætir við að útgáfan sé ekki síður mikilvæg tenging við heimilin. „Við sáum þessum fræjum inn á heimilin, færum kveðskapinn heim, sem er mjög dýrmætt og gaman.“

Mikilvægt er að viðhalda þekkingu á kveðskap og rímum, að sögn Jensínu. Hún bendir á að um 115 börn séu í skólanum á hverju skólaári. Töluverður fjöldi barna á aldrinum tveggja til sex ára hafi því fengið þessa kennslu í kveðskap.

Í þessu sambandi segir hún að á Þjóðminjasafninu megi hlusta á gamlan kveðskap. „Eitt sinn kom barn frá okkur á Þjóðminjasafnið og þegar byrjað var að spila vísurnar á bandi tók barnið undir, það kunni að kveða vísurnar. Þetta hafði starfsfólk safnsins ekki upplifað áður; að barn kæmi og kynni að syngja gleymdan og grafinn þjóðlegan arf.“

Til stóð að kynna söngheftið og diskinn á sérstökum viðburði á Barnamenningarhátíðinni en vegna kórónuveirufaraldursins verður hátíðin með mjög breyttu sniði í ár. „Útgáfan er okkar framlag til Barnamenningarhátíðarinnar og til að byrja með verður efnið í boði innan Hjallastefnunnar,“ segir Jensína.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. júní. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert