186 stúdentar brautskráðust úr MA

186 stúdentar útskrifuðust úr Menntaskólanum á Akureyri á þjóðhátíðardaginn.
186 stúdentar útskrifuðust úr Menntaskólanum á Akureyri á þjóðhátíðardaginn. Ljósmynd/Menntaskólinn á Akureyri

Alls brautskráðust 186 stúdentar úr Menntaskólanum á Akureyri í blíðskaparveðri á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, og er það í annað skipti sem svo fjölmennur árgangur brautskráist frá skólanum.

Dúx skólans, Birta Rún Randversdóttir hlaut meðaleinkunnina 9,93 sem er hæsta meðaleinkunn sem stúdent hefur brauðskráðst með, frá MA. Semidúx er Harpa Kristín Sigmarsdóttir, með 9,67 í meðaleinkunn. Meðaleinkunn árgangsins á stúdentsprófi var 7,81 sem telst einnig nokkuð hátt.

Athöfnin fór fram í íþróttahöll MA, sem skipt var upp í sóttvarnarhólf, svo gestir gátu verið viðstaddir. Skólinn var þó ekki opinn gestum og gangandi, líkt og venja er til 17. júní og féll einnig niður veisla nýstúdenta, fjölskyldna þeirra og starfsmanna skólans.

Að þessu sinni voru aðeins fulltrúar 10 og 25 ára stúdenta viðstaddir brautskráningu og tilkynnti fulltrúi 25 ára stúdenta að venju úthlutun úr Uglusjóði, sem styrkir þróunarstarf og námsefnisgerð kennara og félagslíf nemenda.

Sjá nánar hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert