Óbreytt staða hjá lögreglumönnum

„Við eigum eftir að sjá betur hvernig samningarnir þeirra líta út. Það verður skoðað núna í framhaldinu,“ segir Frímann Birgir Baldursson, varaformaður Landssambands lögreglumanna. Vísar hann í máli sínu til miðlunartillögu í kjaradeilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við ríkið.

Lítið hefur gengið í viðræðum lögreglumanna við ríkið, en stéttin hefur nú verið samningslaus í rétt um 15 mánuði. Segist Frímann eiga von á fundarboði frá ríkissáttasemjara.

„Við erum að bíða eftir að heyra frá honum og að boðaður verði fundur. Ég geri ráð fyrir að það verði gert fljótlega fyrst þetta er frá í bili,“ segir Frímann og bætir við að staðan í viðræðunum sé óbreytt. Ekkert hafi gerst síðustu vikur. „Það ber enn á milli og staðan er í raun óbreytt. Það er spurning hvort viðhorf ríkisins sé breytt eftir samninga hjúkrunarfræðinga. Við höfum komið með ýmsar tillögur en öllu hefur verið hafnað af ríkinu,“ segir Frímann í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert