Auka stuðning við íslenskan útflutning

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, kynnti aðgerðir starfshópsins í dag.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, kynnti aðgerðir starfshópsins í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hyggst auka stuðning við íslenskan útflutning til þess að sporna við áhrifum kórónuveirufaraldursins á íslenskt efnahagslíf. Starfshópur á vegum ráðuneytisins kynnti í dag tillögur að aðgerðum sem snúa að því hvernig skerpa megi á framkvæmd utanríkisþjónustunnar.

Viðskiptavakt starfrækt allt árið um kring

Tillögurnar eru í fjórum liðum sem snúa að beinum stuðningi við viðskiptalíf, gerð og rekstri alþjóðasamninga, almennri meðferð utanríkismála og starfshátta utanríkisþjónustunnar. 

Leggur starfshópurinn til að sett verði á viðskiptavakt, sem myndi veita útflutningsfyrirtækjum greiðari leið að viðskiptaþjónustu sendiskrifstofa, ráðuneytis og Íslandsstofu. Hún verði starfrækt allt árið um kring og veiti meðal annars liðsinni vegna takmarkanna vegna kórónuveirufaraldursins.

Þá er að auki lögð til útvíkkun viðskiptafulltrúanets með útsendingu þriggja sérhæfðra viðskiptafulltrúa með reynslu úr íslensku atvinnulífi til að starfa í sendiráðunum í Stokkhólmi, París og London. 

Ísland tali fyrir viðskiptafrelsi og gegn verndarhyggju

Lagt er til að Ísland haldi áfram að skipa sér í forystuseit ríkja sem tala fyrir viðskiptafrelsi og gegn verndarhyggju. Unnið verði að því að greina hindranir á útflutningi vöru- og þjónustu frá Íslandi og reynt að fyrirbyggja eða takast á við verndaraðgerðir annarra ríkja.

Loks verður lagt kapp á að klára samninga um fríverslun og efla samskipti við Bretland eftir Brexit. Í skýrslu starfshópsins segir:

„Í ljósi umfangs viðskipta við Bretland er þetta stærsta úrlausnarefni á sviði samninga um utanríkisviðskipti á næstu misserum.“

Nánar á vef Stjórnarráðsins. 

mbl.is