Umfangsmiklar skimanir hafnar vegna smitsins

Þessar umfangsmiklu skimanir fela það í sér að allir sem …
Þessar umfangsmiklu skimanir fela það í sér að allir sem voru í sóttkví og fóru ekki í skimun í gær verða kallaðir í veirupróf og einnig verða tengdir aðilar kallaðir í skimun. Það er til dæmis gert í samstarfi við knattspyrnufélög Stjörnunnar, Breiðabliks og KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þríeykið svokallaða og fulltrúar Landspítalans og Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) funduðu í húsnæði ÍE í dag og var ákveðið, að frumkvæði ÍE, að fara í umfangsmiklar skimanir vegna smitsins sem greindist hjá knattspyrnukonu sem kom frá Bandaríkjunum, viku eftir að hún kom heim. Nokkrar veislur eru undir í smitrakningu vegna smitsins. Báðir sem greindust með kórónuveiruna í landamæraskimun í dag voru með gömul smit og eru því ekki smitandi.

„[Á fundinum] var farið yfir þessi þrjú smit sem eru komin upp,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is og á þá við smit konunnar og tvö afleidd smit.

„Íslensk erfðagreining lagði til að það yrði farið í umfangsmiklar skimanir í tengslum við þau. Það var samþykkt að fara í það og það er farið á fullt.“

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn ásamt Katrínu jakobsdóttur forsætisráðherra á blaðamannafundi í …
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn ásamt Katrínu jakobsdóttur forsætisráðherra á blaðamannafundi í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skima í samstarfi við knattspyrnufélög

Þessar umfangsmiklu skimanir fela það í sér að allir sem voru í sóttkví og fóru ekki í skimun í gær verða kallaðir í veirupróf og einnig verða tengdir aðilar kallaðir í skimun. Það er til dæmis gert í samstarfi við knattspyrnufélög Stjörnunnar, Breiðabliks og KR. 

„Það er verið að skima svolítið í kring. Svo er Íslensk erfðagreining að skoða þessi mál og sjá hvort það sé hægt að staðfesta að þessar smitleiðir séu með öðrum hætti. Sýnin eru raðgreind út frá því hvort þetta tengist allt saman eða hvort þetta sé hugsanlega með öðrum hætti svo við fáum skýrari mynd af því sem er hugsanlega að gerast,“ segir Víðir án þess að fara frekar út í þau mál.

Því fleiri, því erfiðara

Háskóli Íslands útskrifaði nemendur í dag og verður því væntanlega nokkuð um útskriftarveislur í kvöld. Víðir sagðist hafa áhyggjur af því að fleiri smit gætu komið upp í veislunum.

„Eins og við höfum sagt allan tímann er það þannig að því fleiri sem koma saman því erfiðara verður að rekja smitin og meiri hætta á hópsýkingum. Það er erfitt að sjá þetta akkúrat í augnablikinu. Í þessum smitrakningum sem við erum að vinna í eru nokkrar veislur undir, flestar þeirra eru þar sem einhverjir tugir komu saman. Stærstu veislurnar eru töluvert stórar en þó undir þeim viðmiðum sem eru í gangi varðandi samkomubann.“

Víðir mælist til þess að þeir sem ætla sér á stór mannamót hugi að eigin smitvörnum, gæti þess að þvo á sér hendurnar og noti spritt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert