„Þetta verður gott hjónaband“

Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi.
Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi.

Bókaútgáfan Forlagið mun áfram starfa með óbreyttum hætti eftir kaup Storytel AB á 70% hluta félagsins í dag. 

Sænska hljóðbókaveitan keypti bæði hluta Egils Arnar Jóhannssonar, 11%, og sömuleiðis stærstan hluta bókmenntafélagsins Máls og menningar, sem mun áfram fara með 30% hlut í útgáfunni. Egill Örn verður áfram framkvæmdastjóri Forlagsins. 

Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi, segir kaupin hafa verið í ferli frá því í janúar þessa árs. 

„Þetta byrjar á milli okkar hérna á Íslandi og Forlagsins og síðan kynnti ég þetta fyrir Svíunum og mönnum leist þannig á að við ákváðum að hefja formlegar viðræður í janúar. Þessi hugmynd kemur til vegna þess að Storytel býr yfir tækifærum til að auka rafræna útgáfu hjá útgefendum og Storytel hefur verið að kaupa útgáfufélög í Skandinavíu undanfarin ár. Sú stafræna væðing sem hefur komið í kjölfarið hefur gengið mjög vel og hratt,“ segir Stefán. 

Erum í umbreytingarferli

Hann segir raf- og hljóðbækur það sem koma skal sem viðbót við prentaðar bækur. 

„Við ráðum ekkert við þessa þróun sem er að eiga sér stað, hvernig sem hún verður og það er bara spurning um að standa sem best að henni. Auðvitað er það þannig að sumir eru kannski ekki tilbúnir að taka þátt í þessari þróun, það er stundum smá hræðsla við nýja hluti. En maður þarf að líta á framtíðina sem tækifæri en ekki ógn. Við erum bara í umbreytingarferli og þeir verða sigurvegarar sem spila sem best úr því,“ segir Stefán og bætir við að fyrirtækið muni taka öllum útgefendum og höfundum opnum örmum.

„Ísland hefur verið svolítið á eftir í þessari stafrænu væðingu, bæði í hljóðbókum og rafbókum þó að Forlagið hafi verið með ákveðið frumkvæði þar. Stafrænar tekjur hafa verið svona 30-50% annars staðar á meðan þær hafa bara verið örfá prósent hér á Íslandi. Við erum með þekkinguna á þessu sviði á meðan Forlagið er með samskiptin við höfundana. Við erum kannski meira að þjónusta öðruvísi neytendur, sem kjósa að nýta sér nýja tækni. Þannig að þetta verður bara gott hjónaband,“ segir Stefán. 

Stefán segir að engar breytingar séu fyrirhugaðrar á rekstri Forlagsins, nema að ef til vill munu neytendur sjá fleiri bækur frá Forlaginu á Storytel. 

„Það breytist ekkert. Storytel á Íslandi verður bara systurfélag Forlagsins og til viðbótar á Mál og menning áfram 30% í félaginu. Okkur þykir það mikill styrkur og það er óvanaleg leið hjá okkur. Storytel kaupir yfirleitt 100% í félögum en við mátum það þannig að styrkur Máls og menningar væri það mikill og mikilvægur fyrir alla. Þetta verður áfram rekið sem íslenskt félag og alveg óháð Storytel á Íslandi.“

Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og voru tilkynnt þangað samhliða undirritun kaupsamningsins í morgun. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert