335% fjölgun á erlendu starfsfólki

Hlutfall erlendra starfsmanna er 44% á Suðurlandi.
Hlutfall erlendra starfsmanna er 44% á Suðurlandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjöldi erlendra ríkisborgara sem unnu í íslenskri ferðaþjónustu jókst um 335% á árunum 2008 – 2019. Árið 2008 unnu 2.427 erlendir ríkisborgarar í íslenskri ferðaþjónustu, en árið 2019 voru þeir 10.551 talsins. Þá var aukningin mest á árunum 2016 – 2018. Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála um aðstæður erlends starfsfólks í ferðaþjónustu.

Flestir erlendir starfsmenn í ferðaþjónustu koma frá Austur-Evrópu, og fram kemur í skýrslunni að erlendir ríkisborgarar gegni meira en 40% ferðaþjónustustarfa í sumum landshlutum. Hlutfall erlendra starfsmanna er um 44% á Suðurlandi og 42% á Suðurnesjum og Austurlandi.

Brot á kjarasamningum algeng

Höfundar skýrslunnar eru Magnfríður Júlíusdóttir, lektor í mannvistarlandfræði hjá Háskóla Íslands, og Íris H. Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð ferðamála. Þær tóku viðtöl við starfsfólk stéttarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins, sem og við erlent starfsfólk í ferðaþjónustu víða um landið. Þá notuðu þær sérútkeyrð gögn frá Hagstofu Íslands til að kortleggja nánar hvar erlendir ríkisborgarar starfa í ferðaþjónustu hér á landi.

Í skýrslunni kemur fram að brot á kjarasamningum séu algeng, og sé fólk að fá vangreidd laun miðað við ákvæði kjarasamninga um skipulag vakta og álagsgreiðslna í vaktavinnu eða skiptingu launa í dagvinnu eða eftirvinnu.

Greiðsla jafnaðarlauna vandamál

Kjarninn greinir frá því að jafnaðarlaun og tvískiptar vaktir séu sérstakt vandamál í ferðaþjónustu á Íslandi. Í skýrslunni segir að starfsfólk sé í sumum tilfellum látið vinna á tvískiptar vaktir á álagstímum að morgni eða í hádegi, fara síðan í launalausa pásu og mæta aftur til vinnu í kringum kvöldmat.

Greiðsla jafnaðarlauna er gjarnan tengd við tilraunir til að halda …
Greiðsla jafnaðarlauna er gjarnan tengd við tilraunir til að halda launakostnaði í lágmarki. mbl.is/Árni Sæberg

Þá kom greiðsla jafnaðarlauna oft upp sem vandamál í viðtölum skýrslunnar, sem eru notuð í stað þess að skilja á milli launa fyrir dagvinnu og yfirvinnu eins og kjarasamningar kveða á um. Er jafnlaunagreiðsla gjarnan tengd við tilraunir atvinnurekenda til að einfalda launaútreikninga og sem leið til að halda niðri launakostnaði.

Í skýrslunni segir að þegar greitt er jafnaðarkaup býr atvinnurekandi til sinn eigin taxta sem er hærri en dagvinnulaun, en langt undir yfirvinnutaxta. Veldur það því að starfsfólk fái undirborgarð.

Viðmælendur í skýrslunni tjá oft áhyggjur yfir því að grafið sé undan leikreglum á íslenskum vinnumarkaði og eðlilegri samkeppni milli fyrirtækja. Fram kemur að árangursríkasta leiðin til að stoppa alvarlegustu brotin gegn erlendu vinnuafli sé að stoppa í göt í lögum og efla eftirlit opinberra stofnana.

mbl.is