Berskjaldaðir fyrir brotum á vinnumarkaði

Ferðamenn við Skógafoss. Flestir erlendir ríkisborgarar sem starfa í ferðaþjónustu …
Ferðamenn við Skógafoss. Flestir erlendir ríkisborgarar sem starfa í ferðaþjónustu eru frá Austur-Evrópu. mbl.is/Rax

Mikil þörf er á öflugra eftirliti af hálfu hins opinbera varðandi málefni erlends vinnuafls í íslenskri ferðaþjónustu og styrka þarf vinnustaðaeftirlit um allt land. Flestir erlendir starfsmenn í ferðaþjónustu koma frá Austur-Evrópu og þá skortir bæði upplýsingagjöf og samfélagslegt öryggisnet.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, Aðstæður erlends starfsfólks í ferðaþjónustu: sjónarhorn stéttarfélaga og starfsfólks.

Höfundar skýrslunnar eru Magnfríður Júlíusdóttir, lektor í mannvistarlandfræði hjá Háskóla Íslands, og Íris H. Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála. Þær tóku viðtöl við starfsfólk stéttarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins og einnig við erlent starfsfólk í ferðaþjónustu víða um landið. Þá notuðu þær sérútkeyrð gögn frá Hagstofu Íslands til að kortleggja nánar hvar erlendir ríkisborgarar starfa í ferðaþjónustu hér á landi.

Íris Hrund Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála, og Magnfríður Júlíusdóttir, …
Íris Hrund Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála, og Magnfríður Júlíusdóttir, lektor í mannvistarlandfræði hjá Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Rannsóknin sýnir að flokka má fyrirtæki í ferðaþjónustu í þrennt þegar kemur að málefnum erlends starfsfólks:

Í fyrsta lagi fyrirtæki sem eru með hlutina í lagi og fara eftir gildandi kjarasamningum og reglum á íslenskum vinnumarkaði.

Í öðru lagi fyrirtæki þar sem gerð eru mistök vegna þekkingarskorts eða fljótfærni eigenda og forsvarsmanna.

Í þriðja lagi fyrirtæki sem ítrekað brjóta kjarasamninga að því er virðist af ásetningi og komast refsilaust upp með það

Að mati starfsmanna þeirra stéttarfélaga sem tóku þátt í rannsókninni er árangursríkasta leiðin til að stöðva alvarlegustu brotin að laga gloppótt lög og efla eftirlit opinberra stofnana.

Árið 2019 störfuðu hér á landi erlendir ríkisborgarar frá 70 löndum. Hlutfall erlendra starfsmanna var hæst á Suðurlandi, en einnig mikið á Suðurnesjum og á Austurlandi.

mbl.is