Gerðu ráð fyrir þátttöku ÍE út júlí hið minnsta

Gert er ráð fyrir því að sú tækjasamstaða sem til …
Gert er ráð fyrir því að sú tækjasamstaða sem til þarf til að anna landamæraskimun komi til landsins í haust.

Gengið var út frá því að Íslensk erfðagreining sæi um landamæraskimun út júlí hið minnsta. Undirbúningur fyrir aukna afkastagetu veirufræðideildar Landspítalans gengur í samræmi við það. Erfitt er að fá hingað til lands þann tækjabúnað sem þarf. 

„Það var gengið út frá því að frá 15. júlí tækju þau [Íslensk erfðagreining] þetta að sér fram að mánaðarmótum júlí/ágúst eða fram í miðjan ágúst. Það var lagt upp með það plan í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu,“ segir Maríanna Garðarsdóttir, forstöðumaður rannsóknarþjónustu Landspítalans. 

Ljóst er að veirufræðideild spítalans mun þurfa að taka við landamæraskimun í næstu viku ef halda á henni áfram, en Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, tilkynnti í gær að þætti Íslenskrar erfðagreiningar í skimun á kórónuveirunni væri lokið eftir 13. júlí. 

„Miðað við það plan sem við settum upp að taka við skimun á landamærum í ágúst gengur undirbúningur ágætlega. En miðað við það að við þurfum væntanlega að taka við þessu í næstu viku gengur það hægt, við erum bara í miðjum húsnæðisbreytingum og að panta tæki og slíkt,“ segir Maríanna. 

Maríanna Garðarsdóttir.
Maríanna Garðarsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á veirufræðideildinni, sagði það í gær „gjörsamlega útilokað“ fyrir deildina að taka við landamæraskimun í næstu viku ef hún á að vera með sama hætti. Maríanna segir málið flækjast þegar kemur að tækjabúnaði. 

„Það flóknasta í þessu fyrir okkur er að afla þeirra tækja sem við þurfum sem eru eftirsótt á heimsvísu og langur afhendingartími. Það var farið í það strax að fá þessi tæki inn. Þessi tæki eru bara ekki fáanleg okkur til kaups fyrr en í haust,“ segir Maríanna. 

Þangað til umrædd tækjasamstæða verður fáanleg er afkastageta deildarinnar ekki nægilega mikil til að anna þeim fjölda sýna sem koma í landamæraskimun. 

„Hugsanlega gætum við afkastað um 1.000 sýnum en á sama tíma standa yfir húsnæðisframkvæmdir hjá okkur, sem eru náttúrulega stór liður í þessum undirbúningi, starfsmenn eru komnir í orlof og við þurfum að sinna sjúklingasýnum. Þetta tekur frá getunni eins og hefur alltaf legið fyrir. En það eru ekki komin tilmæli frá sóttvarnalækni enn um hvernig þessu verður háttað í næstu viku. Það vantar fyrst og fremst þessa stóru sjálfvirku tækjasamstæðu sem kemur í haust og afkastar um þrjú til fjögur þúsund sýnum. Þangað til getum við aldrei greint neinn verulegan fjölda sýna,“ segir Maríanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert