Halda áfram að greina sýni í húsnæði ÍE

Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson.

„Við lítum á þetta sem samstarfsverkefni milli Íslenskrar erfðagreiningar og Landspítalans, þar sem verkefnið er að færast yfir til okkar,“ segir Maríanna Garðarsdóttir, forstöðumaður rannsóknarþjónustu Landspítalans.

Maríanna segir að Landspítali taki formlega við ábyrgð á verkefninu frá og með morgundeginum, en að spítalinn muni halda áfram að greina sýni í húsi Íslenskrar erfðagreiningar í nokkra daga í viðbót á meðan verið er að klára undirbúning þess að spítalinn flytji greiningu á sýnum vegna skimunar á landamærum að fullu í eigið húsnæði í Ármúla.

„Við höfum verið að vinna þessi sýni í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar undanfarið með okkar starfsfólki. Ábyrgð verkefnisins færist til Landspítala á morgun, og vinnsla sýna færist í Ármúla alfarið á næstu dögum.“ Maríanna segir að undirbúningurinn sé unninn í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu.

Húsnæði spítalans í undirbúning

Sýni frá landamærunum verða, að sögn Maríönnu, ennþá unnin í húsnæði ÍE í Vatnsmýri, á meðan húsnæði Landspítalans er undirbúið. Þar að auki vinnur spítalinn að undirbúning ferla í greiningu sýna og hugbúnaðarmála.

Landspítalinn mun nota hugbúnað Íslenskrar erfðagreiningar, sem var þróaðir við skimun á Íslendingum og notaður við skimun á ferðamönnum. „Við erum að aðlaga þann hugbúnað að okkar kerfum, og að okkar verkferlum sem við munum taka upp,“ segir Maríanna.

Upphaflega var gert ráð fyrir því að Landspítalinn myndi alfarið taka yfir greiningu skima í eigin húsnæði á morgun, en að sögn Maríönnu náðist ekki að klára undirbúninginn fyrir þann tíma.Verkefnið sé engu að síður alfarið á ábyrgð Landspítala frá og með morgundeginum. Hún segir að það muni skýrast betur á næstu dögum hversu lengi spítalinn muni nýta húsnæði ÍE, en að það verði stuttur tími.

Í samtali við mbl.is í dag sagði Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar að ákvörðunin um að ÍE myndi hætta að rannsaka sýni í dag standi, en að fyrirtækið muni vera Landspítalanum innan handar á meðan spítalinn taki við verkefninu.

mbl.is