Farþegar frá sex löndum sleppa við skimun

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tilkynnti á blaðamannafundi í dag að farþegar frá Noregi, Danmörku, Finnlandi og Þýskalandi muni framvegis ekki þurfa að fara í skimun eða sóttkví við komuna til landsins. Þetta tekur gildi strax á fimmtudaginn, 16. júlí.

Þessi fjögur lönd bætast við Grænland og Færeyjar, þaðan sem farþegar mega þegar koma án sýnatöku við landamærin.

Íslendingar sem eru að koma frá þessum löndum munu heldur ekki þurfa að fara í skimun eða sóttkví við komuna til landsins, heldur er beint til þeirra að fara sérstaklega varlega fyrstu tvær vikurnar á landinu.

„Ég hef áður lýst því yfir að æskilegt væri að skima út júlímánuð og taka þá ákvörðun um hvort ekki væri hægt að breyta um áherslur, m.a. með því að hætta að skima einstaklinga frá ákveðnum löndum þar sem smithætta er mjög lítil. Í dag er ljóst að útlit er fyrir að farþegum hingað til lands muni fjölga töluvert og á næstu dögum er líklegt að fjöldinn fari yfir það hámark sem er talið að við getum annað í skimunum, þ.e. 2.000 einstaklingar á dag, og þetta getur valdið ákveðnum vandkvæðum. 

Í ljósi þessa og einnig þeirra verðmætu upplýsinga sem við höfum fengið með skimuninni og einnig nýrra áreiðanlegra upplýsinga frá Sóttvarnastofnun Evrópu um útbreiðslu COVID-19 í einstaka löndum, tel ég að það sé réttlætanlegt að flýta breytingum eða nýrri áherslu í skimunum frá því sem við töldum, um lok mánaðarins, og fara í það fyrr og flýta því um eins og eina eða tvær vikur,“ sagði Þórólfur.

Ekki að láta undan einu eða neinu

Aðspurður hvort hann væri að láta undan þrýstingi frá ferðaþjónustunni með því að taka þessa ákvörðun sagði sóttvarnalæknir: 

„Ef við erum að fara yfir getu okkar til að sinna meiru en 2.000 sýnum er um tvo kosti að ræða, annaðhvort að flýta þessari ákvörðun um eina eða tvær vikur, eða þá að grípa til mjög harðra aðgerða til að stöðva innkomu flugs sem hefði þýtt lagasetningu og meiriháttar mál. Þegar maður skoðar þessa tvo kosti finnst mér ekki vafi á því að það er einfaldara að taka kostinn sem við gripum til. Í mínum huga er það ekki að láta undan einu eða neinu heldur bara fara eftir þeim plönum og prinsippum sem við höfum verið að nota allan tímann.“

Til þess að mega koma sóttkvíar- og skimunarlaust inn í landið þarf maður að hafa dvalið í áhættulitlu landi (einu af þessum sex) í alla vega tvær vikur. Hafi maður verið á áhættusvæði á síðustu tveimur vikum, þarf maður að fara í skimun eða sóttkví.

Fyrstur kemur fyrstur fær og aðrir í sóttkví

Páll Þórhallsson verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu sagði að ekki hafi verið hægt fyrir samræmingarstjóra á flugvellinum að velja og hafna um hvaða flugfélög fengju pláss á vellinum, ef hefta hefði þurft flæði landsins vegna takmarkaðrar afkastagetu landamæraskimunar.

Páll Þórhallsson verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu.
Páll Þórhallsson verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Því hafi verið valið að skapa svigrúm þess í stað með því að hleypa inn frá ákveðnum löndum. Páll sagði að evrópsk lög gerðu ráð fyrir að takmarka megi komu til landsins vegna afkastagetu flugvallar, þ.e. setja stopp, en að sýnataka sem þessi félli ekki beint undir afkastagetu flugvallar heldur væri þetta sérstök sóttvarnaráðstöfun. Því væri hugsanlega erfitt að takmarka komur á grundvelli ráðstöfunarinnar.

Páll sagði hins vegar að ef farþegum myndi fjölga um of og ekki væri hægt að anna skimunum eða hleypa inn skimunarlaust frá fleiri löndum, væri lögformlega hugsanlegt að hafa „fyrstur kemur fyrstur fær og aðrir fara í sóttkví“ kerfi til þess að róa flæðið til landsins. Þórólfur sagði einnig að þetta væri hugsanlegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert