Vond tíðindi fyrir ferðaþjónustuna

Ekki er víst að skimun á Keflavíkurflugvelli anni eftirspurn.
Ekki er víst að skimun á Keflavíkurflugvelli anni eftirspurn. Morgunblaðið/Íris

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir það mjög vond tíðindi ef að til þess kemur að fella þurfi niður flug af þeim sökum að ekki sé hægt að anna skimunum á Keflavíkurflugvelli.

Þetta segir hann í samtali við mbl.is, en í morgun var greint frá því að flöskuháls kunni að myndast vegna þess 2.000 skimana hámarks sem unnið hefur verið eftir og þeim möguleikum að fella þurfi niður flug til landsins af þeim orsökum. Hann segir að þar á bæ hafi menn bent stjórnvöldum á þennan aðsteðjandi vanda síðustu vikur og í raun áður en að völlurinn opnaði 15. júní.

„Við höfum trú á því að menn muni finna skynsama lausn á þessu,“ segir Jóhannes, en bætir við að þessum aðstæðum fylgi ákveðin orðsporshætta, þ.e. að ferðamenn verði að geta treyst því sem sagt hefur verið og þurfi ekki að búa við óvissu og áhættu við að velja Ísland sem áfangastað. Einnig varpar hann fram spurningum um það hver beri ábyrgð á tjóni og mögulegum skaðabótaskildum sem af kunna að hljótast.

mbl.is