Fimm smit en fjórir með mótefni

mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Fimm greindust með kórónuveirusmit við landamæraeftirlit í gær. Fjórir þeirra reyndust með mótefni en beðið er niðurstöðu hjá þeim fimmta. Öll sem mældust jákvæð daginn áður, sunnudag, reyndust með mótefni. Þetta kemur fram á covid.is.

Ekkert smit hefur greinst innanlands frá 2. júlí og síðasta virka smitið sem greint var á landamærunum er síðan 7. júlí.

Á landamærunum hafa verið tekin 36.738 sýni frá 15. júní og af þeim hafa 12 greinst sem smitandi einstaklingar. Alls eru nú 12 í einangrun á Íslandi og þeir eru allir með virk smit og 93 eru í sóttkví. Alls hafa verið staðfest 1.905 smit í heildina á Íslandi og af þeim hefur 1.882 batnað. Tíu hafa látist af völdum COVID-19 á Íslandi. 

Enginn er á sjúkrahúsi vegna COVID-19. Innanlands hafa verið tekin 67.975 sýni frá því kórónuveirufaraldurinn braust út fyrr á árinu. 22.946 hafa lokið sóttkví.

Í  gær voru tekin 1.875 sýni á landamærum þannig að 0,27% þeirra reyndust með smit. Á sýkla- og veirudeild Landspítalans voru tekin 78 sýni í gær. 

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og landlæknir hafa boðað til upplýsingafundar fyrir fjölmiðla klukkan 14:00 í dag.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Páll Þórhallsson verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu og Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, fara yfir stöðu mála varðandi opnun landamæra og COVID-19 hér á landi. Auk þeirra mun Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, vera á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert