„Allt á floti“ á Húsavík

Búðará breyttist í stöðuvatn í morgun.
Búðará breyttist í stöðuvatn í morgun. mbl.is/Hafþór

„Það er allt á floti, nánast alls staðar,“ segir Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri Norðurþings, í samtali við mbl.is. Það hefur rignt eins og hellt sé úr fötu á Húsavík og hefur af þeim sökum þurft að loka brú yfir Búðará, sem rennur í gegnum bæinn.

„Við erum búnir að vera að síðan snemma í morgun að dæla úr kjöllurum og sinna fleiri verkefnum,“ segir Grímur. 

Slökkviliðsstjórinn segir að allt hafi stíflast í Búðará og orðið yfirfullt af vatni. Áin hafi litið út eins og stöðuvatn.

Slökkviliðsmenn hafa haft nóg að gera.
Slökkviliðsmenn hafa haft nóg að gera. mbl.is/Hafþór

„Núna erum við á leið í stjórnsýsluhúsið hérna, þar sem kjallarinn er fullur af vatni. Það virðist ekkert lát á þessu,“ segir Grímur.

Hann bætir við að enn sé talsvert vatnsveður í bænum þó það sé ef til vill heldur minna en í morgun. Slökkviliðsstjórinn býst þó við því að sinna vatnstengdum verkefnum það sem eftir lifir dags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert