Icelandair og SA réðust gegn rétti vinnandi fólks

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Icelandair og Samtök atvinnulífsins hafa gengið fram af ótrúlegri hörku gagnvart FFÍ [Flugfreyjufélagi Íslands]. Meðlimir í FFÍ hafa þurft að þola kúgun og ógnarstjórnun milljón krónu-mannanna. Kvennastétt sem notar hjarta, hendur og heila við sína vinnu hefur þurft að þola það að vera sagt upp stöfum, kastað í ruslið, vegna þess að meðlimir hennar vildu ekki hlýða skipunum frá þeim sem telja sig eigendur alls á þessari eyju.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í pistli Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar stéttarfélags, sem hún skrifar um atburði síðustu daga og vikna og birtir á Facebook-síðu sinni.

Verði að verja réttindi með kjafti og klóm

Hún segir vinnandi fólk á Íslandi undanfarna daga og vikur enn á ný fengið innsýn inn í hugarheim meðlima auð- og valdastéttarinnar „sem telja sig eigendur íslensks samfélags“. Í ljósi þess hljóti fólk að vera þungt hugsi eftir þá samstilltu árás á flugfreyjur sem hafi átt sér stað.

„Við verðum bæði að berjast af fullum krafti fyrir því að auðvaldið fari hér ekki sínu fram eins og því sýnist, og einnig verja með kjafti og klóm okkar áunnu réttindi. Við verðum að berjast sameinuð fyrir efnahagslegu lýðræði og réttlæti á Íslandi,“ skrifar Sólveig.

Hún segir ástandið í „kvennaparadísinni“ vera þannig að vinnandi konur eigi von á því að vera útmálaðar sem galnar og haldnar skemmdarfýsn, eiga von á því að vera hæddar og smánaðar fyrir það eitt að reyna standa vörð um réttindi sín og berjast fyrir eðlilegum launum fyrir sína vinnu.

Framgangan til háborinnar skammar

Í þeirri atlögu taki ríkir og valdamiklir karlar þátt sem svífast nákvæmlega einskis. Ljóst sé að „kven-vinnuaflið“ verði að standa saman nú sem aldrei fyrr.

„Í aðförinni að FFÍ réðust Icelandair og SA gegn rétti vinnandi fólks á Íslandi til að bindast samtökum í stéttarfélagi og semja sameiginlega um kjör sín. Harkan sem sýnd var af þessum aðilum er til háborinnar skammar og verður lengi í minnum höfð. Fulltrúar fyrirtækisins og talsmenn SA skulda flugfreyjum afsökunarbeiðni vegna framkomu sinnar,“ skrifar Sólveig.

Þá fer hún yfir það sem rætt og ritað hefur verið um hugsanlega þátttöku lífeyrissjóðanna í fyrirhuguðu hlutafjárútboði Icelandair og segir lögmál auðsöfnunar og arðráns ekki vera náttúrulögmál þó að talsmenn „stór-kapítalsins“ láti þannig.

„Það er einhverskonar úrkynjun að skilja það ekki“

„Auðvaldið á ekki vinnandi fólk og auðvaldið á ekki eftirlaunasjóði okkar. Það er afskaplega óheppilegur misskilningur, svo vægt sé tekið til orða, að einhver skuli láta sér detta það til hugar. Staðreyndin er sú að vinnandi fólk á Íslandi getur ekki og mun ekki samþykkja að eftirlaunasjóðir þess verði nýttir til að fjármagna árásir á grunnréttindi vinnuaflsins eða til fjármögnunar á fyrirtækjum sem standa í fararbroddi slíkra árása.

Að forystufólk í verkalýðsfélögum bendi á þessa augljósu staðreynd er fullkomlega sjálfsagt og eðlilegt. Það er einhverskonar úrkynjun að skilja það ekki. Að sjálfsögðu á formaður í verkalýðsfélagi að lýsa yfir algjörri andstöðu við að sjóðir launafólks séu notaðir til að gefa auðvaldinu frítt spil til að innleiða nýja og ógnvænlega tíma á Íslandi,“ skrifar hún jafnframt í pistlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert