Við erum á hættulegu augnabliki

„Þessi veira er stöðugt að stökkbreytast, og stökkbreytingarnar eru nokkurn veginn handahófskenndar þannig að hægt og hægt myndast röð af stökkbreytingum sem er svolítið sérstök fyrir ákveðin landsvæði,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, um þau afbrigði veirunnar sem greinst hafa undanfarna daga og hafa ekki sést hérlendis áður.

„Þannig gátum við til dæmis sýnt fram á að á meðan sóttvarnayfirvöld voru að beina sjónum sínum að einstaklingum sem komu frá Ítalíu og Austurríki í upphafi faraldursins var veiran að smokrast inn í landið frá öðrum löndum, eins og til dæmis Bretlandi.“

Annars staðar að

„Varðandi þessi smit sem voru að koma upp núna, þá eru þau með röð af stökkbreytingum sem eru allt öðruvísi en allt það sem við sáum þegar faraldurinn gekk hér yfir. Hún er að koma annars staðar að,“ útskýrir Kári, og að við raðgreiningu Íslenskrar erfðagreiningar á veirunni hafi ýmislegt skrýtið komið í ljós.

Þannig séu íþróttamaðurinn sem greindist í kjölfar frjálsíþróttamóts í Kaplakrika um síðustu helgi, smitaður faðir sem fylgdist með knattspyrnumótinu Rey Cup um þessa helgi og maður með tvöfalt ríkisfang sem kom frá Englandi og fór á mis við svokallaða heimkomusmitgát við heimkomuna frá Englandi allir með sömu tegund af veiru, og virðast hafa fengið veiruna frá sömu uppsprettu, að því er Kári segir. Hann segir þó ekki útlit fyrir að íþróttamaðurinn og fótboltapabbinn hafi smitast af þeim sem hingað kom frá Englandi og olli hópsmiti á Akranesi.

„Nei, það er örugglega ekki frá honum vegna þess að hann var ekki sá sem varð fyrst lasinn. Það lítur út fyrir að íþróttamaðurinn sem greindist í síðustu viku hafi smitast síðar en faðirinn á fótboltamótinu,“ segir Kári.

Leynilögregluvinna

„Bara með því að raðgreina veiruna getum við fengið ýmsar upplýsingar um það hvernig hún berst mann frá manni. Það er svolítil Sherlock-vinna, leynilögregluvinna að rýna ofan í raðirnar á veirunni og reyna að finna út hver smitaði hvern og hver smitaðist á undan hverjum,“ segir Kári.

Auk þessa afbrigðis veirunnar sem þremenningarnir greindust með barst hingað annað afbrigði með erlendum ríkisborgara búsettum í Ísrael, sem smitaði fararstjóra sinn. „Þeir eru líka með safn stökkbreytinga sem við höfum ekki séð áður, en það er ekkert sem gerir hana sérstaklega ísraelska að uppruna, við vitum ekki hvort hún kemur beint þaðan en hún er öðruvísi en allt annað sem við höfum séð, og öðruvísi en smit þessa íþróttamanns, föðurins og uppi á Akranesi.“

„Það eina sem þetta bendir til er að veiran sé að koma inn í landið úr hinum ýmsu áttum, og gefur okkur ástæðu til að vera á tánum. Það er geysilega mikilvægt að menn hafi greiðan aðgang að því að láta prófa sig ef menn eru með einkenni. Það má ekki vera þessi tregða sem er búin að vera í kerfinu. Svo um leið og það greinist smit, þá skiptir miklu máli að senda sýnin fljótt til okkar svo við getum fundið út hvaðan það smit kemur,“ segir Kári.

Pínulítið kvíðinn

„Það vitum við ekki,“ segir Kári spurður hvort hann telji aðra bylgju kórónuveirufaraldursins hafna hérlendis. „Það fer allt eftir því hversu vel okkur tekst að hemja þetta þegar það kemst inn í landið. Núna er ég pínulítið kvíðinn af því þessi íþróttamaður og faðirinn í fótboltakeppninni og síðan þeir uppi á Akranesi, þeir tengjast ekki beint, svo það er alltaf sú hætta að það sé eitthvert fólk inni á milli.“

„Til dæmis er íþróttamaðurinn með stökkbreytingu sem er pínulítið öðruvísi en hjá hinum, það eru tvær stökkbreytingar í viðbót og það gæti bent til þess að það væru einhverjar manneskjur inni á milli sem hefðu sýkst. Við verðum að vera vakandi og verðum að hreyfa okkur hratt, ganga úr skugga um að við gerum allt sem við getum til þess að finna þá sem hafa komist í snertingu við þá sýktu og setja þá í sóttkví,“ segir Kári að lokum.

„Við erum á hættulegu augnabliki en ég hef fulla trú á að við getum náð stjórn á þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert