Fjarðarkaup nota sjálfvirka sótthreinsistöð fyrir kerrur

„Ég var ekkert spenntur fyrir þessu í byrjun en svo hefur þetta svínvirkað. Þetta hefur vakið mikla athygli, kúnnarnir eru mjög ánægðir með þetta og við höfum fengið jákvæð viðbrögð.“

Þetta segir Gísli Þór Sigurbergsson, verslunarstjóri Fjarðarkaupa, í samtali við mbl.is um sjálfvirka sótthreinsistöð fyrir kerrur sem verslunin hefur verið með í notkun undanfarið.

Gísli segir að það hafi tíðkast lengi að bjóða viðskiptavinum upp á sótthreinsiklúta til að þrífa búðarkerrurnar í Fjarðarkaupum áður en heimsfaraldur kórónuveiru skall á.

„Við vorum með sótthreinsiklúta við innganginn og fólk var mjög duglegt að nota þá og sótthreinsa kerrurnar fyrir notkun. Svo náttúrulega kemur faraldurinn og þá byrjum við að sótthreinsa,“ segir hann.

Það hafi gengið vel og hann hafi alls ekki verið á höttunum eftir sjálfvirkri sótthreinsistöð fyrir kerrurnar. Hann vissi ekki einu sinni að svona græja væri til.

Eftir það varð ekki aftur snúið

„En það kom til mín maður með mynd af svona græju og ég var ekkert spenntur. En hann hélt áfram og bauð mér að taka hana og prófa hana. Síðan kom hann með græjuna og eftir það varð ekki aftur snúið,“ útskýrir Gísli.

Hann segir að græjan verði áfram í notkun enda ljóst að við munum þurfa að lifa með veirunni í einhvern tíma og þó að veiran fari sé skynsamlegt að halda áfram að sótthreinsa kerrurnar enda noti þær margir á hverjum degi.

Hann bætir því við að græjan sé ekki mjög dýr og að allar verslanir sem hafa áhuga á að fá sér svona ættu að ráða við það.

Það fer ekki mikið fyrir sótthreinsistöðinni.
Það fer ekki mikið fyrir sótthreinsistöðinni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert