„Það hlaut að koma að þessum tímapunkti“

Alma Möller landlæknir hvetur alla landsmenn til þess að herða …
Alma Möller landlæknir hvetur alla landsmenn til þess að herða smitvarnir í ljósi nýrrar stöðu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Innanlandssmitin sem hafa verið að greinast á landinu undanfarið hafa erlendan uppruna. Það þýðir að þau hafi ekki dúrað í landinu frá því fyrsta bylgjan reið yfir, heldur komu þau inn í landið eftir að erlendum ferðamönnum varð frjálst að koma inn í landið án sóttkvíar.

Fyrst var talið að glufan sem smitið komst í gegnum að utan og inn í íslenskt samfélag hafi myndast vegna þess að einstaklingur frá Eystrasaltslandi, sem einnig er íslenskur ríkisborgari, virti ekki heimkomusmitgát og fór til vinnu á Akranesi smitaður. Nú er hins vegar talið að viðkomandi hafi smitast á Íslandi, sem þýðir að sjónir beinast frekar að smitum sem berast frá ferðamönnum og í heimamenn, sem síðan smita aðra heimamenn.

Í ljósi þessara sjónarmiða segir Alma Möller landlæknir að verið sé að hugleiða hvort breyta þurfi ráðstöfunum við landamærin. „Flest smitin höldum við að séu að koma utan. Þess vegna erum við að líta til þess hvort það þurfi að gera eitthvað á landamærunum. Við vitum það ekki enn þá,“ segir hún.

Ákveðið síðar í dag hvort núgildandi ráðstafanir verði hertar

Á sama tíma er til umræðu að herða ráðstafanir innanlands, ekki síst nú í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar. Virk smit á landinu eru 24 og 14 þeirra eru innanlandssmit. Uppruni smitanna er ekki fundinn, þannig að ljóst þykir að þau séu einhverju fleiri en þessar tölur segja til um.

Ríkisstjórnin tilkynnti eftir fund í morgun að tilslökunum sem áttu að ganga í gildi 4. ágúst yrði frestað um tvær vikur. Í kvöld fundar heilbrigðisráðherra með sóttvarnayfirvöldum aftur til þess að ákveða hvort einnig þurfi að herða núgildandi aðgerðir.

Alma sagði í samtali við mbl.is eftir upplýsingafund almannavarna í dag: „Við erum með samfélagsleg smit í gangi og við höfum ekki getað rakið þau öll. Það er ákveðið áhyggjuefni og eins og er eru óþægilega margir lausir endar, finnst okkur. Það hlaut að koma að þessum tímapunkti, að eitthvað gerðist, því okkur finnst fólk heldur vera farið að slaka á. Þannig að nú erum við að hvetja einstaklinga, fyrirtæki og alla til að herða smitvarnir.“

Ekki tímabært að segja hvort þetta sé önnur bylgja faraldursins

„Það er ekki alveg tímabært að segja hvort þetta er hópsmit eða önnur bylgja að hefjast. Það munum við svolítið sjá á næstu dögum, hvaða stefnu hlutirnir taka.“

Landlæknir sagði þá aðspurður að fólk eigi ekki að hætta að heimsækja ömmu og afa. „Nei, en það á að gæta sín mjög vel. Gæta fjarlægðar og ekki vera í faðmlögum og allt það. Alls ekki heimsækja ömmu og afa ef þú ert með einkenni eða nýkomin(n) frá útlöndum en við höfum aldrei sett reglur um heimsóknir, það eru heimilin sjálf sem gera það og þau eru með góðar rútínur. Við biðjum bara um að fólk skerpi á öllu,“ sagði Alma.

Þá hafi verið biðlað til atvinnurekenda, sérstaklega vegna erlendra verkamanna, að gæta þess að þeir skili sér í sýnatöku tvö. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert