Stíft eftirlit með fjöldasamkomum í Eyjum

Frá Goslokahátíð í Vestmannaeyjum í vor. Svo margir munu ekki …
Frá Goslokahátíð í Vestmannaeyjum í vor. Svo margir munu ekki koma saman þjóðhátíðarhelgina. Ljósmynd/Goslokahátíð

Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, segir víst að nokkuð af brottfluttum Eyjamönnum og sömuleiðis fjölskyldum heimamanna muni koma í heimsókn til Eyja yfir helgina. Hann telur þó ekki ástæðu til að hafa sérstakar áhyggjur af hópamyndun.

Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum.
Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum. mbl.is

„Það verða fjölskyldur í görðum og vinir og vandamenn hittast en við eigum ekki von á fjöldasamkomum. Við verðum líka með stíft eftirlit, erum ágætlega mannaðir og munum fylgja þessu eftir. Vestmannaeyingar eru búnir að upplifa sjálfir að lenda í hópsýkingu og taka þetta mjög alvarlega,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is.

Aðeins 100 mega koma saman og tveggja metra regla er skyldubundin. Þeir veitingastaðir sem geta ekki uppfyllt þessi skilyrði verða að loka. Jóhannes nefnir að stefnt hafi verið að götugrillum og fagnaði í tjöldum í miðbænum en að dregið hafi verið í land með þau áform. Í dag væri forspil Þjóðhátíðarinnar hafið að fullu ef henni væri til að dreifa þetta árið.

„Það átti að gera eins gott úr þessu og hægt var en það verður ekki heldur. Ef það væri Þjóðhátíð hérna væri þegar orðinn fullur bær. Það yrði líklega methátíð með svona marga Íslendinga á ferð um landið. En það kemur önnur Þjóðhátíð eftir þessa, þannig að það er bara að vera þolinmóðir,“ segir Jóhannes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert