380 milljónir í vaskinn

Án Þjóðhátíðar er hart í ári fyrir ÍBV og aðra …
Án Þjóðhátíðar er hart í ári fyrir ÍBV og aðra í Eyjum. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Ekki aðeins verður íþróttafélagið ÍBV af um 300 milljóna tekjum í miðasölu fyrir Þjóðhátíð, heldur verður atvinnulífið í Vestmannaeyjum einnig fyrir miklu almennu tekjufalli. Það má glöggt sjá af kortaveltunni, sem Íslandsbanki birtir í samantekt á vef sínum um efnahagsleg áhrif þess að Þjóðhátíð hafi verið blásin af þetta árið, í þriðja skipti frá upphafi.

Í Þjóðhátíðarvikunni árið 2018 nam kortaveltan um 88 milljónum í Eyjum, samanborið við 27 milljónir í sömu vikum í öðrum mánuðum á því ári. Önnur ár hefur veltan einnig verið um þrefalt hærri í hátíðarviku en öðrum. 

Skjáskot/Íslandsbanki

Þessi kortavelta verður fyrst og fremst til á tjaldstæðinu, veitingastöðum og í vínbúðum og matvöruverslunum. 20,59% viðbótarkortaveltunnar verða þó til hjá ÍBV, og er það utan miðasölunnar sjálfrar. Það er á annan tug milljóna króna sem ÍBV verður því af, til viðbótar við tapaðar miðasölutekjur. ÍBV hefur sagt að það muni verða af 70% af tekjum félagsins í ár. 

Í heildina segir á vef Íslandsbanka að Eyjar verði af um 380 milljónum króna úr því að ekki verður af Þjóðhátíð en þó kemur á móti að aðrar mikilvægar hátíðir, Goslokahátíð, Orkumótið og Pæjumótið, voru haldnar.

Farið yfir málin

Í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins síðustu helgi sagði Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri félagsins, að þetta hefði mikið fjárhagslegt tjón í för með sér: „Það er al­veg ljóst að ÍBV mun ekki koma að neinni dag­skrá hér í Eyj­um um versl­un­ar­manna­helg­ina.“

Spurður hvað þetta þýddi fyr­ir rekst­ur fé­lags­ins á kom­andi mánuðum svar­aði Hörður Orri: „Þegar tekj­ur sem gert hafði verið ráð fyr­ir skila sér ekki þarf að leita annarra leiða. Um tvennt er að ræða í því sam­bandi, ann­ars veg­ar að afla tekna með öðrum leiðum eða draga úr kostnaði. Við erum að fara yfir þessi mál núna og von­umst meðal ann­ars til að eiga viðræður við bæj­ar­yf­ir­völd um það hvort þau komi til með að bæta okur tjónið með ein­hverj­um hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert