Tesla opnar aðra hraðhleðslustöð á Íslandi

Tesla bifreiðum hefur fjölgað mikið hér á landi að undanförnu.
Tesla bifreiðum hefur fjölgað mikið hér á landi að undanförnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rafbílaframleiðandinn Tesla hefur sett upp og opnað sína aðra hraðhleðslustöð hér á landi. Hún er staðsett við N1 í Fossvogi þar sem hægt er að hlaða fjóra bíla á sama tíma í básum sem veita allt að 120 kW.

Hraðhleðslustöðvar Teslu (e. Supercharger) er hraðasta hleðslukerfi í heiminum. Hægt er að nota það til að hlaða Model S, Model X og Model 3 á þægilegan hátt. Hálftíma hleðsla gefur um 270 kílómetra drægni samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá Tesla.

„Hleðslustöðin er staðsett við N1 í Fossvogi, og hefur fjóra V2 ofurhleðslubása. Tesla heldur áfram að vaxa á Íslandi og við teljum að hraðvirkir og notendavænir innviðir séu lykilatriði þegar kemur að því að auðvelda fólki að skipta yfir í rafmagnsbíla,“ segir Even Sandvold Roland, talsmaður Tesla, í tilkynningunni.

Tesla hefur í hyggju að opna fleiri hleðslustöðvar á Íslandi og hefur samið við N1 um uppsetningu á þeim á völdum stöðum við hringveginn.

Hraðhleðslustöðvar Tesla eru þær hraðvirkustu í heiminum samkvæmt því sem …
Hraðhleðslustöðvar Tesla eru þær hraðvirkustu í heiminum samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu. Ljósmynd/Tesla
mbl.is

Bloggað um fréttina