Um 30% minni umferð en í fyrra

Minni umferð hefur verið á þjóðveginum um helgina en síðustu …
Minni umferð hefur verið á þjóðveginum um helgina en síðustu verslunarmannahelgi. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Töluvert minni umferð var á þjóðveginum í gær, föstudag, en á föstudegi verslunarmannahelgarinnar í fyrra. 12.444 bílar keyrðu í gær um þjóðveginn undir Ingólfsfjalli en voru 15.879 fyrir ári og er það samdráttur upp á 21,6%. 

Um Hellisheiði fór í gær 11.551 bíll en 15.128 sama dag í fyrra og fækkaði þeim um 23,6%. Þá er samdrátturinn enn meiri á Kjalarnesi þar sem 10.622 bílar fóru um þjóðveginn í gær, 32,8% færri en sama dag árið 2019.

Í samtali við mbl.is segir Aðalsteinn Guðmundsson, varðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að það komi lögreglunni þó á óvart hve mikil umferð hefur verið um vegi landsins í dag.

Um 9.000 bílar hafa farið um Sandskeið austan höfuðborgarinnar það sem af er degi og er umferð svipuð og í gær. „Þetta er meira en við bjuggumst við enda algengast að mesta umferðin sé á föstudögum,“ segir Aðalsteinn. Þá sé mikið um bíla með ferðavagna í eftirdragi. Umferð hefur að mestu gengið vel um helgina en þó varð minniháttar óhapp við Blikastaði í Mosfellsbæ klukkan korter í þrjú í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert