Var annað viðbúnaðarstig á þessum tíma

Sig­ríður Dóra Magnús­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri lækn­inga hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins.
Sig­ríður Dóra Magnús­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri lækn­inga hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins. Ljósmynd/Lögreglan

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir mikilvægt að fólk sendi inn ábendingar ef það er ósátt við þá þjónustu sem Heilsugæslan veitir. Tilefnið er frásögn ungrar konu sem hringdi margsinnis fyrir hönd veiks kærasta síns sem neitað var í þrígang um sýnatöku fyrir Covid-19-sjúkdómnum.

Fyrsta símtalið fór fram á mánudegi og á miðvikudegi var henni tjáð að hann gæti farið í sýnatöku í fyrsta lagi á föstudegi en aðeins ef ástand hans myndi versna. Síðar kom í ljós að þau bæði voru sýkt af veirunni en umrædd símtöl fóru fram síðari hluta júlímánaðar.

„Við vorum með annað viðbúnaðarstig á þessum tíma þegar smitin voru ekki eins tíð. En nú höfum við lagt áherslu á að fjölga sýnatökum á öllum stöðvum. Svo förum við í sameiginlegar sýnatökur eftir helgi. Öll þessi vika fór í umfangsmikinn undirbúning fyrir það,“ segir Sigríður Dóra við mbl.is.

Almennt segir Sigríður Dóra að á þeim tíma sem atvikið átti sér stað hafi flestar heilsugæslustöðvar verið með skipulagðar sýnatökur þrjá daga í viku, á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum, og að fólk gæti hafa þurft að bíða í um sólarhring eftir að komast í skimun. Sigríður Dóra gat aftur á móti ekki tjáð sig um málavexti þessa einstaka máls sem um ræðir.

„Við hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins leggjum áherslu á að fólk fái góða þjónustu og komist í sýnatöku ef það er með minnstu einkenni sem geta vakið grun um Covid-19-smit," segir Sigríður og bætir því við að hafi fólk einhver einkenni Covid-19 eigi það að halda sig í sjálfskipaðri sóttkví. „Allir þeir sem eru með pestareinkenni eiga að halda sig í sjálfskipaðri sóttkví í að minnsta kosti sólarhring eftir að einkenni hverfa,“ segir Sigríður.

„Ef fólk er ósátt með þjónustuna hvetjum við það til þess að hafa samband við okkur. Það er hægt í gegnum heimasíðu okkar en þar skoðum við öll tilvik þar sem eitthvað hefur hugsanlega farið úrskeiðis,“ segir Sigríður Dóra.

mbl.is