Allt smit úr sömu hópsýkingu

Þórólfur og Víðir á fundinum í dag.
Þórólfur og Víðir á fundinum í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Allir þeir átta einstaklingar sem greindust með innanlandssmit í gær voru með smit af sama stofni og áður, það er annarri hópsýkingunni sem er í gangi í samfélaginu í dag. Fimm voru í sóttkví við greiningu, segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

Hópsýkingin sem kom upp á Akranesi virðist vera einangruð en enginn var með virkt smit í rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar á Akranesi um helgina. 

Aftur á móti er uppruni þessarar hópsýkingar sem nú er í gangi enn óljós og ekki liggur fyrir með tengingar fólks þrátt fyrir að um sama stofn sé að ræða. 

Allir þeir sem greindust í gær voru á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim 26 sem hafa greinst með virkt smit á landamærunum frá 15. júní eru 11 búsettir á Íslandi. Ekkert virkt smit hefur greinst á landamærunum um helgina en beðið er eftir niðurstöðu mótefnamælingar hjá tveimur frá því í gær.

Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir og Alma D. Möller land­lækn­ir fóru yfir stöðu mála varðandi fram­gang COVID-19-far­ald­urs­ins hér á landi ásamt Víði Reyn­is­syni, yf­ir­lög­regluþjóni hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, á upplýsingafundi klukkan 14 í dag.

Fleiri þeirra sem greindust í gær voru í sóttkví en áður segir Þórólfur og bendir á að það sé jákvætt. Hann segir að líklega verði um fleiri tilvik að ræða næstu daga eða þangað til þær auknu sóttvarnir sem gripið var til á föstudag fari að skila árangri. Ef ekki sést árangur er hætta á að smitum fjölgi mikið á næstunni. 

Þórólfur segir að það liggi fyrir að það verði að fara að rannsaka betur hvort veiran sé vægari nú en fyrr í vetur. Engar niðurstöður sé að fá um það að utan en hægt að bera saman þýðið frá því í vetur og nú. Vonandi verði hægt að birta upplýsingar um það á næstunni. 

Alma og Víðir í dag.
Alma og Víðir í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Átta ný smit voru greind inn­an­lands hjá sýkla- og veiru­fræðideild Land­spít­al­ans. Tveir bíða niður­stöðu mót­efna­mæl­ing­ar eft­ir að hafa greinst með smit við landa­mær­in. 80 eru því í ein­angr­un. Alls eru 670 í sótt­kví. Einn ligg­ur á Land­spít­al­an­um með kór­ónu­veiruna en hann er ekki á gjör­gæslu. 

Alls voru tek­in 2.035 sýni á landa­mær­un­um í gær, 914 hjá Íslenskri erfðagrein­ingu og 291 hjá sýkla- og veiru­fræðideild LSH. 

Ný­gengi inn­an­lands­smita held­ur áfram að hækka og er nú 17,7 inn­an­lands. Aft­ur á móti er ný­gengi landa­mæra­smita enn ekki nema 2,2. 

Af þeim sem eru með virkt smit og í ein­angr­un eru 57 á höfuðborg­ar­svæðinu og níu á Vesturlandi. Fjórir eru á Suður­nesj­um og fjórir eru óstaðsett­ir – það er þeir eru ekki með íslenskt lög­heim­ili. Á Norður­landi vestra og eystra er einn í ein­angr­un í hvoru um­dæmi og það sama á við um Suður­land og Vest­f­irði. Enn er eng­inn smitaður á Aust­ur­landi en tveir Íslending­ar með lög­heim­ili í út­lönd­um eru smitaðir og í ein­angr­un hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert