Íslensk dvergasmíð í norskri útrás

Örn ásamt fjölskyldu sinni heima í Fredrikstad. María Lovísa tekur …
Örn ásamt fjölskyldu sinni heima í Fredrikstad. María Lovísa tekur myndina, Arna Kristín systir hennar situr að baki við hlið Karitas Kristínar, móður þeirra. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta hefur nú reyndar blundað í mér lengi því amma mín var norsk og héðan frá Fredrikstad, tenging mín við Noreg hefur verið sterk og foreldrar mínir lögðu ríka áherslu á norsku fjölskyldutengslin. Mamma kom hérna út 1946 og var hér í lýðháskóla í tvö ár,“ segir Örn Þorvarðarson Edvardsen, framkvæmdastjóri og einn eigenda fyrirtækisins Dwarfware, en Örn er fluttur til Fredrikstad í Noregi á tímum þegar útrásar Íslendinga er líkast til síður að vænta en ellegar miðað við ástand heimsmála.

Starfsemin ætti þó að standa skandinavískum hjörtum nærri þar sem Dwarfware vinnur með vörur sem tengjast víkingatímanum, norrænni menningu og norrænni goðafræði og er þar meðal annars um að ræða drykkjarhorn, eða hornglös öllu heldur, með áletruðum textum úr Hávamálum, hvort tveggja á íslensku og í enskri þýðingu Hilmars Arnar Hilmarssonar, allsherjargoða Ásatrúarfélagsins.

„Einnig höfum við hannað diskalínu sem við köllum Haugfé með vísun í þann sið að leggja muni í grafir fólks í heiðnum sið,“ segir Örn, en á botni diskanna eru myndir af munum sem fundist hafa við fornleifauppgröft.

„Svo kom Covid...“

„Ég er nýfluttur hingað,“ segir Íslendingurinn, sem þó er að fjórðungi norskur og heldur heimili með Karitas Kristínu Ólafsdóttur sjúkraliða, eiginkonu sinni, og dætrunum Maríu Lovísu og Örnu Kristínu, „við ætluðum að flytja fyrr, vorum búin að undirbúa þetta í alllangan tíma en svo kom Covid og allt það,“ segir Örn frá og hefur þar sannarlega sömu sögu að segja og milljónir annarra varðandi ástand sem kom gervallri heimsbyggðinni í opna skjöldu og raskaði áætlunum víða. Karitas kona hans á enn fremur son sem búsettur er á Íslandi.

Glös sveigð í anda drykkjarhorna fornra með áletraðri speki Hávamála …
Glös sveigð í anda drykkjarhorna fornra með áletraðri speki Hávamála á íslensku og í enskri þýðingu allsherjargoða. Notandinn er þar með minntur á það við drykkju sína „at færa veit,/er fleira drekkr/ síns til geðs gumi.“ Ljósmynd/Aðsend

„Fyrirtækið var skráð hér 20. febrúar en það var ekki fyrr en 7. júní sem við svo loksins komum hingað,“ segir Örn sem hefur þó oft verið í Noregi áður án þess að vera búsettur þar. „Já já, ég var búinn að taka kúrsa hérna á Blindern [í Háskólanum í Ósló] líka, ég er svona eilífðardoktorsnemi þar,“ segir hann og hlær.

Upphaf starfsemi Arnar er þó ekki að rekja til smíðisgripanna, sem eru hönnun þeirra Hrafnkels Birgissonar og Reynis A. Óskarsonar (svo ritað þar sem Reynir kennir sig til móður sinnar) og voru teknir til frumsýningar á HönnunarMars 2020 við góðar undirtekir, þar á meðal Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, heldur hófst þessi norræna víkingaför með borðspili Reynis, Ragnarök – Örlög goðanna, sem mörgum Íslendingum er kunnugt og kom fram á sjónarsviðið árið 2017.

Gúrú í víkingarannsóknum

„Reynir hafði samband við mig af því hann vissi að ég væri með tengingar við Skandinavíu, ég þekkti hann ekkert þá. Upp úr því fóru málin að þróast, Reynir er náttúrulega algjör gúrú í víkingarannsóknum og öðru sem tengist þessum tíma. Spilið kom út í enskri útgáfu heima en svo bættum við íslenskri útgáfu við og danskri, nú er ég með norsku útgáfuna í prentun og sú þýska ætti að líta dagsins ljós frá þýðanda hvað úr hverju,“ segir Örn frá markaðssetningu sem Covid og ryð virðast ekki fá grandað.

Stig Gunnar Myren, umsjónarmaður víkingalínunnar við lýðháskólann í Nordfjordeid, kynnir …
Stig Gunnar Myren, umsjónarmaður víkingalínunnar við lýðháskólann í Nordfjordeid, kynnir borðspilið fyrir Abid Raja menningarmálaráðherra, þeim hinum sama og nú hefur nýverið boðið Tom Cruise velkominn til kvikmyndagerðar í Mæri og Raumsdal. Myndin er tekin á Sagastad-safninu en ljósmyndarinn, Alfred Bjørlo, er bæjarstjóri í Stad í Vestland-fylki. Ljósmynd/Alfred Bjørlo

Hann segir spilið hafa ýtt þróun borðbúnaðarins úr vör. Reynir hafi þekkt til hönnuðarins Hrafnkels og þeir farið að skoða málin í sameiningu og út úr því hafi komið sú hugmynd að færa víkingaandann norræna áþreifanlega inn í 21. öldina sem hafi verið kveikjan að smíðisgripunum.

Segir Örn næstu skrefin vera að koma spilinu, hornglösum og diskum á markað í Noregi. „Ég sendi hingað út kynningarefni og nokkur sýnishorn til valinna safna hérna í Noregi og fékk mjög góð viðbrögð, til dæmis frá Víkingaskipasafninu [n. Vikingskipshuset] og fleiri söfnum.“

Elska allt sem tengist víkingum

Nú eru breyttir tímar um allan heim, líka á norskum söfnum. Nær Örn að lifa af fyrirtæki sínu eins og staðan er nú?

„Já já, ég hef náttúrulega líka tekjur af fyrirtækinu heima auk þess sem við erum með sölumann í Danmörku og seljum spilið til endursöluaðila í allnokkrum löndum. Ferðamenn á Íslandi keyptu til dæmis mjög mikið af ensku útgáfunni af spilinu áður en þeir hurfu í bili,“ segir Örn og bætir því við að markaðssetningin sé þó botnlaus vinna. „En við fljótum á því að allir eru mjög hrifnir af þessu og við fáum mjög góðar viðtökur, Norðmenn elska náttúrulega allt sem tengist víkingunum,“ segir hann og blaðamaður getur ekki annað en samsinnt því eftir tíu ára búsetu í landinu.

Ensk útgáfa borðspilsins Ragnarök – Örlög goðanna sem fyrst kom …
Ensk útgáfa borðspilsins Ragnarök – Örlög goðanna sem fyrst kom fram á sjónarsviðið árið 2017. Skömmu síðar kom það út á íslensku, dönsk útgáfa hefur litið dagsins ljós og norsk og þýsk er rétt handan hornsins. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá góð viðbrögð frá íslenskum og erlendum fræðingum á hinum ýmsu stigum sem varða vöruna, sérfræðingum í fornnorrænum fræðum, hönnuðum, menntafræðingum og þjóðfræðingum,“ segir Örn frá, „slíkar viðurkenningar eru sannarlega byr í seglin á knerri okkar.“

Fram undan kveður hann einkum vera áframhaldandi þróun á fleiri dvergasmíðum og kynningu Dwarfware víða um heim, hvort tveggja í skandinavísku löndunum og annars staðar í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert