Konan borðaði pöntunina

Grétar Baldursson með mynd af afa sínum, Guðmundi J. Guðmundssyni …
Grétar Baldursson með mynd af afa sínum, Guðmundi J. Guðmundssyni leðurtöffara. Fötin á myndinni fékk afinn í Kanada snemma á síðustu öld. Árni Sæberg

„Ég hef aldrei kært mann, finn það ekki hjá mér, enda hef ég fengið mest af þýfinu aftur. Einu sinni varið stolið af mér tölvu en ég var orðinn þannig í vextinum á þeim tíma að ég gat ekki hlaupið á eftir honum. Eins gott, sagði þá konan, sá hefði farið illa út úr því hefðirðu náð honum og lagst ofan á hann!“

Þetta segir Grétar Baldursson leðurkaupmaður í versluninni Kós en eftir 28 ár á Laugaveginum loka þau eiginkona hans, Kristín Ellý Egilsdóttir, versluninni í lok ágúst og flytja hana í breyttri mynd til Grindavíkur, þar sem þau búa. 

„Við erum komin með pláss á gamla pósthúsinu við hliðina á lögreglustöðinni. Það er mun smærra rými en þetta og við munum einbeita okkur að mótorhjólavörum og skóm. Við verðum þó með lagerinn heima í bílskúr og hægt verður að kaupa fleiri vörur þar. Þá verður heimasíðan okkar, ledur.is, uppfærð bráðlega,“ segir Grétar.

Spurður hvort þeirra hjóna sé betri sölumaður er Grétar snöggur til svars. „Frúin er miklu betri sölumaður en ég; hún er ekki kölluð leðurdrottningin að ósekju. Mér hefur þó farið fram gegnum tíðina og get alveg fundið á þig flotta flík og sannfært þig. Ég er hins vegar löngu hættur að skrökva að fólki. Það gerðist eftir að maður gekk út frá mér í Kolaportinu með allt of síðar ermar. Þá fékk ég móral og hef verið alveg einlægur síðan. Fari þessi jakki þér ekki læt ég þig vita.“  

Lærði gegnum síma að stytta ermar

Grétar gerir einnig við leðurfatnað og hefur fengið ófáa jakkana til sín sem hafa tilfinningalegt gildi fyrir eigandann eða afkomendur hans. „Ég er með aðstöðu hérna fyrir innan til viðgerða. Til að byrja með var ég með saumakonu en þegar hún hætti fékk ég mér saumavél og hún kenndi mér gegnum síma að stytta ermar. Það má heldur ekki gleyma Steinari Júlíussyni feldskera; hann hefur kennt mér mikið.“

Margt eftirminnilegt hefur gerst í Kós gegnum árin; eins og þegar kona nokkur borðaði pöntunina sína fyrir framan Grétar í búðinni vegna þess að jakkinn sem hún hafði pantað handa bónda sínum var ekki kominn á tilsettum tíma. „Sem betur fer var ég alltaf með pantanir í þríriti og manngreyið fékk jakkann sinn á endanum,“ rifjar hann upp brosandi.

Svo var það maðurinn sem tjáði Grétari að hann þyrfti að fara að skipta um kennitölu.

„Nú?“ spurði kaupmaðurinn.

„Já, ég er búinn að versla svo mikið við þig.“

Grétar er þakklátur öllum sem verslað hafa í Kós gegnum …
Grétar er þakklátur öllum sem verslað hafa í Kós gegnum tíðina. Árni Sæberg


Laugavegurinn að verða draugagata

Grétar man þá tíð að verslanir voru fleiri á Laugaveginum en í dag og ríkti þá góð vinátta milli kaupmanna. „Þegar ég var á Laugavegi 39 var Levi's við hliðina á mér og þá fékk ég ófáa kúnna sem keyptu af mér belti við gallabuxurnar. Eftir að Levi's færði sig dró verulega úr beltasölu hjá mér. Ég hef áhyggjur af þróuninni. Fasteignaverð og húsaleiga og önnur gjöld eru alltaf að hækka og ekki langt í að Laugavegurinn verði draugagata. Það hafa margir reynt að hífa hann upp á umliðnum árum en það gengur erfiðlega þegar borgin togar alltaf á móti. Þessi herferð gegn einkabílnum er algjör tímaskekkja enda menga bílar ekki nálægt því eins mikið og þeir gerðu. Það er engin sótmengnun hér á Laugaveginum lengur. Mér líst heldur ekki á borgarlínuna, hverfin okkar eru ekki byggð til að taka á móti henni.“ 

Nánar er rætt við Grétar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »