Hafa ekki gefið menningarnótt upp á bátinn enn

Fjölmargir hlýddu á tónaflóð á menningarnótt í fyrra.
Fjölmargir hlýddu á tónaflóð á menningarnótt í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arna Schram, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort menningarnótt verði haldin í ár eða ekki. 

Fyrr í sumar greindi Reykjavíkurborg frá því að menningarnótt yrði haldin með breyttu sniði í ár til þess að stefna ekki of miklum mannfjölda saman í samræmi við tilmæli almannavarna vegna kórónuveirunnar. 

Síðan þá hafa aðgerðir vegna faraldursins verið hertar, en fram til 13. ágúst verða samkomutakmörk við 100 manns og skylt er að tryggja tvo metra á milli ótengdra aðila. 

Arna segist þó ekki hafa gefið menningarnótt upp á bátinn. 

„Við bara fylgjumst með og tökum þetta frá degi til dags, mátum allar sviðsmyndir og högum okkur í samræmi við það sem verður leyft á þessum tíma. Við ætluðum að fara af stað með 10 daga dagskrá 13. ágúst en eins og útlitið er núna er líklegt að það muni eitthvað breytast. Það liggja engar ákvarðanir fyrir að svo stöddu, við vitum ekki hvar við verðum eftir viku eða tvær vikur, við verðum bara að sjá hvernig þetta þróast,“ segir Arna. 

„Við stefnum enn þá á að hafa eitthvað. Við erum ekkert búin að gefa það upp á bátinn að halda menningarnótt. Við erum bara að skoða alls konar hugmyndir um hvað við getum gert og farið eftir þeim reglum sem verða í gildi. Við vitum ekki hvort yfirvöld herði reglunar enn frekar, en eins og staðan er núna finnst manni að áttin sé frekar sú en annað. Allt þetta ár er búið að vera hálfgerð óvissa, við bara notum hugmyndaflugið og reynum að halda viðburðina ef það er hægt.“

mbl.is