Undirbúa takmörk á ferðamannafjölda

„Það er erfitt að spá fyrir um það hversu margir …
„Það er erfitt að spá fyrir um það hversu margir séu á leiðinni til landsins. Flugrekendur eiga erfitt með að gefa okkur tölur, viku, tíu daga, hálfan mánuð fram í tímann. Hvað þá þrjár eða fjórar vikur, enda breytist hegðun veirunnar dag frá degi og þar með svolítið ferðavilji fólks,“ segir Sigurður Ingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum ekki að smíða reglugerð sem á að taka upp einn, tveir og þrír en við erum aftur á móti að undirbúa okkur undir það að vera í viðbragðsstöðu ef eitthvað gerist vegna þess að við vitum auðvitað ekkert um það hvernig faraldurinn þróast,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, um reglugerð sem er í mótun hjá samgönguráðuneytinu og miðar að því að takmarka þann fjölda ferðamanna sem kemur hingað til lands ef þess þarf.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að skimun á landamærunum væri komin að þolmörkum enda hafi fleiri en 2.000 ferðamenn sem þurfi skimun komið til landsins á síðustu dögum. Greiningargeta Landspítalans (LSH) er takmörkuð og hefur áður verið gefið út að sýkla- og veirufræðideild Landspítalans geti einungis greint um 2.200 sýni frá landamærunum daglega.

Nokkrar leiðir færar

Spurður hvort það þurfi ekki einfaldlega að takmarka fjöldann sem hingað kemur strax vegna takmarkaðra greiningargetu LSH segi Sigurður Ingi:

„Við erum bara að leita leiða. Þessi aðferðafræði [að skima öll sem koma hingað  til lands] virkar mjög vel og við höfum getað lágmarkað áhættuna af ferðamönnum. Svo hefur komið í ljós að flest smitin hafa verið á milli okkar sem búum hérna á landinu. Við þurfum alltaf að herða öðru hvoru og minna okkur á að einstaklingsbundnar sóttvarnir halda vágestinum niðri.“

Kátir ferðamenni í rigningu á Skólavörðustíg.
Kátir ferðamenni í rigningu á Skólavörðustíg. mbl.is/Árni Sæberg

Að sögn Sigurðar er vaxandi eftirspurn eftir því að koma til landsins nú í ágúst.

„Við þurfum auðvitað að ráða við það. Þá eru nokkrar leiðir til þess færar. Ein væri sú að auka skimunargetuna. Önnur væri að flokka lönd einhvern veginn öðru vísi en gert er. Við sjáum þó að það sé ólíklegt að grænum löndum fjölgi, það er frekar að einhver grænu landanna verði rauð. Á sama hátt gæti ferðavilji Evrópubúa breyst. Við höfum verið að greina stöðuna og undirbúa okkur ef við þyrftum að grípa inn í með einhverjum öðrum leiðum en fyrst og fremst erum við að leitast við að ráða við verkefnið vegna þess að það hefur gengið mjög vel,“ segir Sigurður Ingi og bendir á að af þeim 70.000 sem skimaðir hafa verið á landamærum hafi einungis 30 greinst með virk smit, þar af 15 erlendir ferðamenn.

Greiningargeta Landspítalans er takmörkuð og því á sýkla- og veirufræðideildin …
Greiningargeta Landspítalans er takmörkuð og því á sýkla- og veirufræðideildin erfitt með að taka á móti fleiri sýnum frá landamærunum en 2.000. Tæki sem auka greinignargetuna eru væntanleg í október. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Best væri að auka greiningargetu

Sigurður Ingi telur að besta lausnin á vandanum væri að auka greiningargetu Landspítalans en segir að stjórnvöld séu tilbúin í að bregðast við því ef of margir ferðamenn sækist eftir því að koma hingað til lands. Erfitt er að spá fyrir um það hversu margir munu vilja koma hingað á næstunni þó augljóslega sé áhugi ferðamanna á því að koma til Íslands í ágúst mikill.

„Flugrekendur eiga erfitt með að gefa okkur tölur, viku, tíu daga, hálfan mánuð fram í tímann. Hvað þá þrjár eða fjórar vikur, enda breytist hegðun veirunnar dag frá degi og þar með svolítið ferðavilji fólks.“

16. júlí síðastliðinn bættust fjórar þjóðir í hóp þeirra sem eru undanskildar skimun á landamærum. Áður höfðu stjórnvöld velt því mikið fyrir sér hvernig væri hægt að fækka þeim sem færu í skimun á landamærunum vegna takmarkaðrar greiningargetu LSH. Sigurður Ingi segir þó að mögulegt sé að setja á reglugerð sem takmarki hversu margir koma hingað til lands. Það sé samt sem áður flókið og því sé ráðuneytið nú að undirbúa sig. 

mbl.is

Bloggað um fréttina