Ekki sjálfstæð rannsókn á hvarfi Konráðs hér á landi

Konráðs Hrafnkelssonar hefur verið saknað frá því á fimmtudag.
Konráðs Hrafnkelssonar hefur verið saknað frá því á fimmtudag. Ljósmynd/Lögreglan

Engin sjálfstæð rannsókn á hvarfi Konráðs Hrafnkelssonar er í gangi hér á landi en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar lögregluyfirvöld í Brussel. 

Konráðs hefur verið saknað síðan á fimmtudag, en hann hefur verið búsettur í Brussel ásamt unnustu sinni frá árinu 2018. Síðast sást til Konráðs á skyndibitastað í miðborg Brussel klukkan níu á fimmtudagsmorgun. 

Karl Steinar Valsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir forræði rannsóknarinnar alfarið hjá lögreglunni í Brussel. 

„Forræðið er alfarið hjá Belgum en við aðstoðum eins og við getum. Við erum bara að veita þá aðstoð sem þeir þurfa tengt þessu, það er hefðbundin aðstoð sem veitt er þegar svona atburður á sér stað og það fer bara eftir því hvernig kerfið í mismunandi löndum er,“ segir Karl Steinar. 

„Þau þurfa kannski ákveðnar upplýsingar og fleira sem þeirra rannsókn krefst sem við getum þá veitt að þeirra beiðni án þess að hafa aðild að því, ekki nema þá samkvæmt þeirra ósk. Það er engin sjálfstæð rannsókn á Íslandi tengd þessu máli, þetta er fyrst og fremst í formi aðstoðar.“

Fram kom í tilkynningu frá fjölskyldu Konráðs í gær að lögregla á Íslandi og í Brussel vinna nú úr gögnum sem aflað hefur verið. 

Þeim sem kunna að hafa upp­lýs­ing­ar um ferðir Kon­ráðs er bent á að hafa sam­band við aðstand­end­ur gegn­um tölvu­póst­fangið info.konn­i92@gmail.com eða með því að hringja í lög­regl­una á Norður­landi eystra í síma 444-2800.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert