Segir mikilvægt að opna neyslurými strax

Sprautunálar fundust í verkfæraskúr við frístundaheimilið.
Sprautunálar fundust í verkfæraskúr við frístundaheimilið. Ljósmynd/Aðsend

Þórður Atli Eiríksson, aðstoðarforstöðumaður á frístundaheimili á höfuðborgarsvæðinu, segir nauðsynlegt að afglæpavæða vímuefnaneyslu og opna neyslurými fyrir einstaklinga með vímuefnavanda. Sprautunálar voru í verkfæraskúr við frístundaheimilið þegar hann sneri aftur til vinnu eftir sumarfrí. 

Þórður greindi frá þeim aðstæðum sem tóku á móti honum og samstarfskonu hans, þegar þau sneru aftur til vinnu að sumarfríi loknu, á Facebook. Sprautunálar og annar búnaður til vímuefnaneyslu fundust í verkfæraskúrnum, en Þórður segist áður hafa þurft að tína upp sprautunálar af skólalóðinni. Þórður hefur meðal annars starfað sem sjálfboðaliði fyrir skaðaminnkandi úrræðið Frú Ragnheiði og segist meðvitaður um hvað þurfi að gera fyrir fólk sem ekki hefur aðgang að öruggu neyslurými. 

„Ég tel aðgang að öruggu neyslurými vera nauðsynlega breytingu á ávana- og fíkniefnalöggjöfinni og mikilvægan lið í því að vernda þá sem eru í þeirri aðstöðu að þurfa að sprauta sig og eru í mikilli heilsufarslegri áhættu vegna þess,“ segir Þórður í samtali við mbl.is og bætir við að vandi neytenda ávana- og fíkniefna sé heilbrigðismál og ætti ekki að vera viðfangsefni lögreglu, neytendur séu fyrst og fremst sjúklingar en ekki afbrotamenn. 

Þórður segir það vondar aðstæður fyrir ófaglærðan einstakling að þurfa að hreinsa sprautunálar og fleira af skólalóð. Hann segir kjarna málsins þó vera þann að skaðaminnkandi úrræði skorti fyrir einstaklinga með vímuefnavanda og að hann finni ekki til reiði gagnvart þeim einstaklingum sem þarna voru heldur fremur gagnvart samfélaginu sem að sögn Þórðar hefur brugðist þeim sem glíma við vímuefnavanda.  

Ég vil bara nýta tækifærið til að deila með ykkur myndum af frekar óþægilegum aðstæðum sem tóku á móti mér og...

Posted by Þórður Atli Eiríksson on Þriðjudagur, 4. ágúst 2020
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert