„Margfalt meira en venjulega í ánni“

Mikið vatn er nú í Kerlingadalsá.
Mikið vatn er nú í Kerlingadalsá. mbl.is/Jónas Erlendsson

Miklir vatnavextir eru nú í ám og vatnsföllum á Suðurlandi og er þar Kerlingadalsá undir Mýrdalsjökli engin undantekning, en áin nær nú svo gott sem fjalla á milli þar sem Fagridalur og Kerlingadalur mætast.

„Þetta er margfalt meira en venjulega í ánni,“ segir Jónas Erlendsson í Fagradal, fréttaritari mbl.is. Þá segir hann vatnið greinilegt leysingavatn, enda mun gruggugra en venjulega. Að svo stöddu segist Jónas þó ekki hafa áhyggjur af því að vatn fari yfir nærliggjandi vegi, enda hafi aðeins dregið úr úrkomu á síðustu klukkustund.

„Þetta er með meira móti sem verður á sumrin,“ segir Jónas, en bætir þó við að það vaxi að meðaltali vel í ánni í eitt til tvö skipti á sumri.

Örlítið austar við þjóðveg 1 er brúin yfir Múlakvísl. Jónas var þar á ferðinni nú á sjöunda tímanum og þá hafði áin farið yfir vegslóða sem liggur frá þjóðveginum upp meðfram ánni og Háafelli. Er vegurinn helst notaður fyrir Vegagerðina sem kemst þar í efni.

Mikið vatnsmagn er einnig í Múlakvísl og hefur áin farið …
Mikið vatnsmagn er einnig í Múlakvísl og hefur áin farið yfir vegslóða sem liggur frá þjóðveginum upp meðfram ánni og Háafelli. Er vegurinn helst notaður fyrir Vegagerðina sem kemst þar í efni. mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is