Hljóð gerir Akureyringum lífið leitt

Það sem sumir eru farnir að kalla Akureyrarsóninn, drauga- og/eða geimveruhljóð hefur gert íbúum á Akureyri lífið leitt undanfarið.

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarmaður hefur vakið athygli á hljóðinu á Facebook, en RÚV fjallar einnig um málið. 

Þorvaldur segir hljóðið hafa verið sérstaklega hávært um kl. 5:30 í gærmorgun, en það hafi raskað svefnfriði margra undanfarnar nætur. Fullyrðir hann raunar að hljóðið hafi hangið yfir bænum öðru hverju síðan hið minnsta 2014.

Það var svo í gærkvöldi sem Þorvaldur náði loks góðri hljóðupptöku af hljóðinu og deildi á Facebook við myndskeið af Ávaxtakörfunni, sem sjá má hér að neðan.

Fullyrðir Þorvaldur raunar að hljóðið hafi hangið yfir bænum öðru …
Fullyrðir Þorvaldur raunar að hljóðið hafi hangið yfir bænum öðru hverju síðan hið minnsta 2014.

Líklega eðlileg skýring á hljóðinu

Í samtali við mbl.is segir Aðalsteinn Júlíusson, varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, að engar tilkynningar hafi borist lögreglu vegna málsins. Honum þykir líklegasta skýringin að hljóðið komi frá blásurum í Vaðlaheiðargöngum sem fara af stað þegar mengun í göngunum er mikil. „Ég er nánast viss um að það eru engar geimverur hérna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina