Einkennilegt hljóð raskaði næturró

Við Akureyrarhöfn. Mynd úr safni.
Við Akureyrarhöfn. Mynd úr safni. mbl.is/Skapti

Íbúar á Akureyri vöknuðu sumir hverjir við einkennilegan hávaða sem barst frá hafnarsvæðinu í nótt. Þótti hljóðið minna á risastóran farsíma sem lægi undir kodda og titraði reglulega í töluverðri fjarlægð.

Þetta á sér eðlilegar skýringar samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni. Hún segir að viðvörunarbjalla um borð í skipi hafi bilað.

Þetta gerðist um kl. 02:40 í nótt og raskaði næturró bæjarbúa. Lögreglan segir í samtali við mbl.is að óskað hafi verið eftir aðstoð viðgerðarmanns.

Um hálftíma eftir að menn urðu fyrst varir við hljóðið var búið að slökkva á bjöllunni.

Vonandi hafa flestir bæjarbúar sem vöknuðu í nótt náð að festa svefn á ný eftir að viðgerð lauk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert