Eldflaugarskot frá Langanesi

Eldflaugin tekur á loft.
Eldflaugin tekur á loft. Ljósmynd/Skyrora

Eldflaug var skotið upp á Langanesi í morgun. Að skotinu stóð skoska fyrirtækið Skyrora en skotið var í samstarfi við Geimvísinda- og tækniskrifstofu Íslands.

Um þrjátíu manns komu saman til að fylgjast með skotinu klukkan tíu í morgun. Flauginni var skotið upp í tveimur hlutum með nokkurra sekúndna millibili, og fór fyrri hlutinn í um sex kílómetra hæð en sá síðari í 30 kílómetra hæð. Lentu þeir síðar í sjó skammt undan landi. Um borð í flaugunum var rafeindabúnaður, tvær tölvur með staðsetningartæki og þrýstingsmæli. 

Atli Þór Fanndal, forstöðumaður skrifstofunnar, segir að um tilraunaskot sé að ræða en markmiðið sé að geta skotið gervitunglum út í geim og á sporbaug um jörðu þegar fram líða stundir.

Ljósmynd/Örlygur Hnefill Örlygsson

Ísland ákjósanlegt til geimkönnunar

Geimvísinda- og tækniskrifstofan var formlega stofnuð á síðasta ári en óformlegar viðræður höfðu hafist árið áður. Atli segir að markmið stofnunarinnar sé að hlúa að geimvísindum hér á landi og gera það að verkum að hægt sé að taka á móti fólki hingað til land í þeim tilgangi. „Það á ekki að vera alveg galin hugmynd að ungt fólk á Íslandi vilji vinna að geimvísindum,“ segir Atli.

Árið 2016 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu þess efnis að Ísland skyldi sækja um aðild að Evrópsku geimferðastofnuninni, en 22 ríki eiga aðild að henni. Síðan þá hafa forviðræður staðið yfir. „Besta leiðin til að sannfæra fólk, hvort sem það eru pólitíkusar eða aðrir, er að gera eitthvað,“ segir Atli. Eldflaugarskotið í dag hafi verið góð áminning um gróskuna.

Nokkur hópur fólks safnaðist saman til að fylgjast með skotinu.
Nokkur hópur fólks safnaðist saman til að fylgjast með skotinu. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

„Það er gríðarleg eftirspurn eftir að koma til Íslands hvort sem það snýst um jarðfræði eða gervigreind,“ segir Atli. Ísland sé vel staðsett til að komast á pólarbraut, hér séu veðurgögn góð og landið hafi stórt flugumsjónarkerfi.

„Það er tiltölulega mikil virkni þegar kemur að geimvísindum hér á landi. Við erum með háskóla í fremstu röð þegar kemur að fjarkönnun,“ segir Atli og bendir á að rektorar tveggja stærstu háskóla landsins, Jón Atli Benediksson og Ari Kristinn Jónsson, sem vann um tíma hjá NASA, hafi lagt málaflokknum lið.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, var meðal þeirra sem fylgdist …
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, var meðal þeirra sem fylgdist með. Ljósmynd/Örlygur Hnefill Örlygsson

Uppfært 12:35
Ranglega var haldið fram að eldflaugarskotið væri það fyrsta hér á landi í 50 ár. Eldflaug var hins vegar skotið upp á Vigdísarvöllum skammt frá Krýsuvík haustið 2006 eins og greint var frá í Morgunblaðinu á sínum tíma.

Uppfært klukkan 7:37 mánudaginn 17. ágúst

Eins var þremur eldflaugum skotið upp af Mýrdalssandi árið 2014

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert