Hallandi staur hleypti öllu af stað

Horft yfir Breytingar á stöðu íshellunnar sem GPS-mælingar sýndu ollu …
Horft yfir Breytingar á stöðu íshellunnar sem GPS-mælingar sýndu ollu því að talið var að hlaup væri að hefjast í Grímsvötnum. Hækkun á yfirborði á ný bendir til þess að hlaup sé ekki að hefjast. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Jarðeðlisfræðingur frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sérfræðingar Veðurstofu Íslands og sérfræðingar Landhelgisgæslunnar fóru í gær með þyrlu upp á Grímsfjall til að kanna þar aðstæður.

Snjór í kringum staur sem tengdur er GPS-mæli á fjallinu var farinn að bráðna, en við það hallaði staurinn og benti það til þess að hlaup væri að hefjast undan Grímsvötnum. GPS-mælar sýndu svo í kjölfarið hækkun á yfirborði á ný og er því ekki talið á þessum tímapunkti að hlaup sé að hefjast undan Grímsvötnum. 

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands var um „falska viðvörun“ að ræða og allt virðist vera með kyrrum kjörum við Grímsvötn eins og staðan er núna. Hópur almannavarna, Veðurstofu og Gæslunnar lagaði búnað á fjallinu, meðal annars vefmyndavél sem er þegar farin að senda myndir sem settar verða á opinn vef. Gasmælingar voru gerðar á staðnum og verður unnið úr niðurstöðum þeirra í dag. Þá voru rafsviðsmiðlar einnig tengdir.

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á veðurstofunni, segir að þau gögn sem liggja fyrir á þessari stundu bendi ekki til þess að hlaup sé að hefjast í Grímsvötnum. Meira áhyggjuefni sé mögulegt gos á svæðinu, en skyndilegur þrýstingsléttir vegna jökulhlaups getur hleypt af stað gosi að sögn Einars. Björgvin Harðarson, bóndi á Hunkubökkum, segist fylgjast vel með gangi mála, en hann hafi ekki miklar áhyggjur á meðan ekki kemur hlaupvatn. Ef fer að gjósa ræður vindáttin úrslitum, en Björgvin segist vona að gos verði ekki fyrr en í vetur svo landið verði tilbúið næsta vor. Fyrirhugað er að hópur frá Veðurstofu Íslands fari aftur að Grímsvötnum á þriðjudag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »